Viðskipti innlent

Segir bleikjueldi Samherja vaxa hratt

Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri fiskeldis Samherja.
Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri fiskeldis Samherja.
„Markaðssetning er kostnaðarsöm og eitt árið var 19% af veltunni varið til markaðs- og kynningastarfs á bleikjunni sem var og er víða óþekkt vara," sagði Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri fiskeldis Samherja, á almennum atvinnumálafundi fyrirtækisins á Akureyri. Bleikjueldi er vaxandi þáttur í fjölþættri starfsemi Samherja. Þetta kemur fram í frétt LÍÚ.

Heimsmarkaðurinn fyrir þessa afurð er hins vegar smár eða um fimm þúsund tonn. Til samanburðar má geta þess að heimsmarkaðurinn fyrir lax er um tvær milljónir tonna. Nærri lætur að Samherji framleiði 40% allrar bleikju á heimsmarkaði, segir í fréttinni.

Framleiðslan hefur vaxið hratt hjá fyrirtækinu, úr 100 tonnum í 2000 á skömmum tíma „án þess að lækka verð á ferskum afurðum," segir Jón. Um 60 manns vinna við eldið auk þess sem 15 manns vinna við flökun hjá Eðalfiski í Borgarnesi.

Um 70% af afurðum fyrirtækisins er flogið til Bandaríkjanna, þar sem Whole Foods matvöruverslanakeðjan er einn af stóru viðskiptavinunum. Jón segir markaðssetninguna á bleikjunni hafa verið mjög dýra en hún hefði skilað árangri.

Hann segir fiskeldi krefjast þolinmæði og fjármagns. Ferlið frá hrognum til sölu afurðar sé að lágmarki 27 mánuðir með stöðugum útgjöldum án þess að króna komi í kassann á móti.

„Þetta hófst sem lítið gæluverkefni innan fyrirtækisins en fer vonandi að verða sjálfstætt. Við höfum stýrt þessu öllu hér innanhúss; eldi, framleiðslu svo og markaðs- og kynningarstarfi. Rétt markaðssetning á bleikjunni hefur skapað þessari vöru ímynd hágæðavöru, sem afurðin rís vel undir," segir Jón Kjartan í frétt LÍÚ.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×