Viðskipti innlent

Flugvalladeilan leyst í bili: „Við erum sátt þar til annað kemur í ljós“

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur.

Búið er að leysa deilu slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og Flugstoða í bili en Jón Viðar Matthíasson hótaði að loka Reykjavíkurflugvelli yrði ekki fjölgað í hópi slökkviliðsmanna á vellinum.

Fyrir voru þeir tveir en Jón Viðar telur æskilegt að þeir verði fjórir. Aftur á móti náðist samkomulag á föstudaginn um að þeim yrði fjölgað um einn.

Sá slökkviliðsmaður er starfsmaður Flugstoða en ekki Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt Hjördísi Guðmundsdóttur upplýsingafulltrúa Flugstoða.

„Ég held að þetta sé ágætislausn fyrir alla aðila," sagði Jón Viðar þegar haft var samband við hann en Flugstoðir hafa kært hótun Jón Viðars um að loka flugvellinum til umhverfisráðherra sem fer með brunavarnamál.

Deilt er um það hvort slökkviliðsstjóra sé heimilt að loka flugvellinum samkvæmt lögum en Flugstoðir telja flugvöllinn ekki mannvirki heldur sé um loftför að ræða.

„Við erum sátt þar til annað kemur í ljós," sagði Hjördís um niðurstöðuna en beðið er eftir niðurstöðu ráðuneytisins og hvort farið verði í lagabreytingar á regluverki sem deilt er um.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×