Viðskipti innlent

Bakkabróðir með rúmar átta milljónir á mánuði

Ágúst og Lýður Guðmundssynir. Ágúst er til vinstri á myndinni.
Ágúst og Lýður Guðmundssynir. Ágúst er til vinstri á myndinni.

Ágúst Gudmundsson, forstjóri Bakkavarar, var með rúmar hundrað milljónir króna í árslaun hjá fyrirtækinu í fyrra, eða um 8,3 milljónir á mánuði. Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Bakkavarar. Bróðir Ágústs, Lýður Guðmundsson fékk 3 og hálfa milljón króna fyrir stjórnarsetu sína í félaginu.

Tap félagsins árið 2009 nam rúmum tveimur milljörðum króna, en árið 2008 tapaði félagið yfir 30 milljörðum.

Kröfuhafar Bakkavarar samþykktu með miklum meirihluta í byrjun mars að ganga að nauðasamningum fyrirtækisins, að öðrum kosti hefði félagið farið í þrot. Í tilkynningu með ársskýrslunni segir að félagið hafi verið endurfjármagnað að fullu í kjölfar samþykktar nauðasamningsins en hann gengur út á framlenginu gjalddaga lána til ársins 2014.

Nauðasamningarnir fela það einnig í sér að Ágúst og Lýður Guðmundssynir stýra félaginu áfram og geta eignast fjórðungshlut í því að nýju 2014.

Eins og fréttastofa greindi frá í byrjun mars fela nauðasamningarnir það einnig í sér að Bakkavararbræður missa yfirráð yfir Existu og dótturfélögum þess, og stjórnendur á vegum þeirra í Exista samstæðunni hverfa á brott.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×