Viðskipti innlent

Marel styður við leikskólana í Garðabæ

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Sigsteinn P. Grétarsson, forstjóri Marel ehf. á Íslandi
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Sigsteinn P. Grétarsson, forstjóri Marel ehf. á Íslandi
Marel afhenti leikskólunum í Garðabæ gjöf í dag til eflingar kennslu á sviði raungreina og náttúruvísinda. Leikskólarnir níu sem starfræktir eru í Garðabæ fengu hver um sig afhenta víðsjá og pakka með ýmsum öðrum kennslubúnaði, að því er segir í tilkynningu.

„Við vonum að þið hafið gaman af þessum búnaði og getið notað hann til að æfa ykkur að vera vísindamenn," sagði Sigsteinn P. Grétarsson, forstjóri Marel ehf. á Íslandi, þegar hann ávarpaði börnin. „Vonandi vilja einhver ykkar svo koma og vinna hjá okkur í framtíðinni."

Gunnar Einarsson bæjarstjóri, leikskólastjórarnir níu í Garðabæ og hópur leikskólabarna veittu gjöfinni viðtöku á leikskólanum Lundabóli. „Ég þakka innilega fyrir þessa sérstöku gjöf og þann hug sem býr að baki, um að stuðla að menntun þessa unga fólks ," sagði Gunnar.

Hópur barna á Lundabóli söng fyrir viðstadda. Þá mætti Ævar vísindamaður úr Stundinni okkar á staðinn og framkvæmdi nokkrar skrautlegar tilraunir sem vöktu óskipta athygli barnanna. Marel styrkir einmitt gerð þáttanna um Ævar.

Í undirbúningi er samstarfssamningur milli Marel og Garðabæjar um eflingu nýsköpunar, vísinda og raungreina í leik- og grunnskólum Garðabæjar. Marel hefur um alllangt skeið lagt metnað sinn í að rækta hugmyndaauðgi barna og unglinga, sem og þeirra sem eldri eru. Á hverju ári veitir fyrirtækið fjölbreyttum verkefnum á sviðum nýsköpunar og menntunar í verk- og raungreinum brautargengi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×