Viðskipti innlent

LV kaupir í Icelandair fyrir milljarð

Í dag gerði Lífeyrissjóður verzlunarmanna bindandi samkomulag við Icelandair Group hf. um að sjóðurinn muni fjárfesta í fyrirtækinu fyrir 1 milljarð króna og eignast með því 12% hlut í félaginu. Lífeyrissjóður verzlunarmanna mun skrá sig fyrir 400 milljónum nýrra hluta á genginu 2,5 - alls fyrir 1 milljarð króna, segir í tilkynningu.

Samningurinn er gerður í kjölfar samnings Framtakssjóðs Íslands um kaup á nýju hlutafé í Icelandair Group fyrir þrjá milljarða króna sem tilkynnt var um í gær. Kaup sjóðsins fara fram á sama gengi. Samningurinn við Lífeyrissjóð verzlunarmanna er gerður með hefðbundnum fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Með samningnum hefur Icelandair Group aflað samtals 4 milljarða af reiðufé með sölu á nýju hlutafé á tveimur dögum. Auk þess hafa stærstu lánveitendur félagsins skuldbundið sig til að breyta skuldum að fjárhæð 3,6 milljarðar króna í hlutafé miðað við gengið 5, þannig að þeir munu skrá sig fyrir 720 milljón nýjum hlutum.

Við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins er gert ráð fyrir að skuldir þess verði lækkaðar um ríflega 10 milljarða króna m.a. með yfirfærslu og sölu á tilteknum eignum sem eru ekki hluti af kjarnastarfsemi félagsins, eins og fram kom í tilkynningu til Kauphallarinnar þann 25. mars sl. Gert er ráð fyrir að fjárfestum og almenningi verði gefinn kostur á að leggja félaginu til nýtt hlutafé í hlutafjárútboðum síðar á árinu.

„Ég er mjög ánægður með fjárfestingu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í Icelandair Group," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group í tilkynningunni. "Á tveimur dögum hefur okkur tekist að breikka hluthafahóp félagsins verulega enda eiga langflestir launamenn landsinshagsmuna að gæta með sparifé sitt í Framtakssjóðnum og lífeyrissjóðnum. Fjárfesting lífeyrissjóðsins mun auka enn á styrk félagsins og getu þess til að styrkja frekar stöðu ferðaþjónustunnar sem einnar mikilvægustu atvinnugreinar landsins."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×