Viðskipti innlent

Gaman ef Seðlabankinn hefur fleiri tromp á hendi

Í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa er fjallað um góðan árangur Seðlabanka Íslands að undanförnu og sagt að gaman væri að sjá á næstu vikum hvort bankinn hafi fleiri tromp á hendi.

Fjallað er um gjaldmiðlaskipasamninginn sem gerður var við Kínverja í síðustu viku í Markaðsfréttunum. Þar segir að samningurinn mun annars vegar auðvelda viðskipti milli landanna, því ekki mun þurfa að nota aðra gjaldmiðla í þeim og hins vegar getur Seðlabanki Íslands keypt júan fyrir krónur, sem aftur ætti að vera hægt að skipta í evrur eða dollara.

„Samningurinn eykur því aðgengi seðlabankans að erlendu fé. Áhrif þessa samnings eru jákvæð fyrir íslenskt hagkerfi en munu ekki hafa teljandi áhrif á krónuna," segir í Markaðsfréttunum.

„Því skal þó haldið til haga að þetta er annað skrefið í rétta átt hjá Seðlabanka Íslands á skömmum tíma, en nýverið eignaðist bankinn íslensk ríkistryggð skuldabréf sem voru í höndum erlends aðila og í raun ígildi „krónubréfa". Á heildina litið er Seðlabanki Íslands á réttri leið og gaman verður að sjá næstu vikur hvort seðlabankinn hafi fleiri tromp á hendi."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×