Handbolti

Alexander spilaði veikur í dramatískum sigri Füchse Berlin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin.
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Pólverjinn Bartlomiej Jaszka tryggði Füchse Berlin 27-26 sigur á Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld með því að skora sigurmarkið rétt fyrir leikslok. Füchse Berlin var fimm mörkum undir í hálfleik en kom til baka og tryggði sér sigur á lokasprettinum.

Þetta var þriðji sigur Füchse Berlin í röð og sá sjöundi í síðustu átta leikjum. Liðið er í 2. sæti deildarinnar með 29 stig eða einu stigi minna en toppliðið HSV Hamburg sem á leik inni á morgun.

Alexander Petersson gat lítið beitt sér vegna meiðsla sem gerir sigur lærisveina Dags enn merkilegri en markahæsti leikmaður liðsins var Mark Bult með 7 mörk.

Füchse Berlin byrjaði leikinn mjög illa og lenti undir 2-6 og 4-10 í upphafi leiks. Füchse-liðið var síðan fimm mörkum undir í hálfleik, 10-15.

Dagur Sigurðsson náði að endurskipuleggja liðið sitt í hálfleik, þeir unnu sig aftur inn í leikinn og náðu að jafna í 18-18. Magdeburg náði hinsvegar aftur tveggja marka forskoti en Füchse Berlin sýndi mikinn styrk í lokin og tryggði sér sigur.

Alexander Petersson var settur á skýrslu á síðustu stundu þar sem óvíst var hvort hann gæti spilað leikinn vegn veikinda. Hann var ólíkur sjálfum sér þegar hann kom inn á í ellefu mínútur í fyrri hálfleik og það var ljóst að Alexander var sárlasinn.

Alexander kom aftur inn í seinni hálfleik og reyndi að hjálpa sínum mönnum en honum tókst ekki að komast á blað og sat því mestan hluta leiksins á bekknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×