Handbolti

Alfreð hafði betur gegn Guðmundi í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans hafa ekki tapað í Meistaradeildinni á þessu tímabili.
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans hafa ekki tapað í Meistaradeildinni á þessu tímabili. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Kiel, lið Alfreðs Gíslasonar, vann þriggja marka sigur á Rhein-Neckar Löwen, liði Guðmundar Guðmundssonar, 30-27, í Meistaradeildinni í dag. Kiel náði mest átta marka forskoti í leiknum en Rhein-Neckar Löwen náði að minnka muninn á lokasprettinum.

Kiel komst í 3-1, 7-3 og 13-6 í leiknum og í hálfleik voru þýsku meistararnr komnir með átta marka foskot, 17-9. Kiel hélt góðu forskoti framan af seinni hálfleiknum en í stöðunni 26-19 kom Löwen-liðið sér inn í leikinn með því að skora þrjú mörk í röð.

Það kom því smá spenna á lokamínútunum þar sem Rhein-Neckar Löwen náði að minnka munninn niður í tvö mörk en nær komust þeir ekki og þurftu því að sætta sig við sitt fyrsta tap í Meistaradeildinni í vetur. Kiel er því eina taplausa liðið í riðlinum og hefur nú tveggja stiga forskot á Rhein-Neckar Löwen.

Rhein-Neckar Löwen fær tækifæri til þess að hefna fyrir tapið í dag því liðin mætast tvisvar á næstu ellefu dögum og í bæði skiptin á heimavelli Rhein-Neckar Löwen. Fyrri leikurinn er í Meistaradeildinni á föstudaginn og sá seinni í þýsku deildinni í vikunni á eftir.

Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk fyrir Kiel og var eini íslenski leikmaðurinn sem komst á blað í leiknum því hvorki Ólafur Stefánsson né Róbert Gunnarsson náðu að skora fyrir Rhein-Neckar Löwen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×