Viðskipti innlent

Millibankamarkaður hrökk í gang, krónan styrkist

Millibankamarkaðurinn með gjaldeyri hrökk óvænt í gang í gærdag og það er áfram líf á honum í dag. Þetta hefur haft þær jákvæðu afleiðingar að gengi krónunnar hefur styrkst og nemur styrkingin í dag ríflega 0,5%.

Krónan styrktist einnig í gærdag og hefur raunar verið í styrkingarfasa undanfarnar vikur. Gengi evrunnar, þegar þetta er skrifað, stendur í 172,5 kr. og hefur ekki verið lægra síðan um mitt síðasta ár. Gengisvísitalan er komin niður í 227 stig og hefur ekki verið lægri síðan um mitt síðasta ár.

Veltan á millibankamarkaðinum nam einni milljón evra í gærdag og sömu upphæð það sem af er degi í dag.

Jón Bjarki Bentsson sérfræðingur hjá greiningu Íslandsbanka segir að það séu mjög jákvætt í stöðunni núna að líf sé komið á millibankamarkaðinn.

„Það eru framundan gjalddagi á ríkisbréfaflokki í næstu viku og þá eigi erlendir fjárfestar kost á að skipta um fjórum milljörðum af vaxtagreiðslum yfir í gjaldeyri," segir Jón Bjarki. „Það að bankarnir séu að setja gjaldeyri á millibankamarkaðinn sýnir að þeir hafa ekki áhyggjur af þessu hugsanlega útflæði af gjaldeyri."

Jón Bjarki segir að allt bendi til þess að bankarnir hafi „fyllt tankana" hjá sér af gjaldeyri á síðustu vikum til að mæta útflæðinu af vaxtagreiðslum til erlendra eigenda ríkisbréfa. Nú telja þeir sig geta tappað aðeins af eins og millibankamarkaðurinn gefur í skyn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×