Viðskipti innlent

Vikur eða mánuðir í nýjan bankastjóra hjá Arion banka

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Nýr bankastjóri verður ekki skipaður í Arion banka fyrr en ný stjórn bankans verður skipuð og það gætu verið vikur ef ekki mánuðir í það. FME þarf fyrst að staðfesta hæfi stjórnarmanna í Kaupskilum, móðurfélagi Arion banka, og þegar því er lokið verður lögð fram tillaga að nýrri stjórn Arion banka.

FME veitti Kaupskilum, dótturfyrirtæki gamla Kaupþings, sérstakt leyfi tli að fara með 87 prósenta hlut í Arion banka en skilanefndin gat ekki farið með hlutinn sjálf því samkvæmt lögum geta þrotabú ekki átt hlut í fjármálafyrirtækjum. Því var farin sú leið að stofna sérstök dótturfélög bæði í tilviki Kaupþings og Glitnis.

Kaupskil hefur lagt fram tillögu að stjórnarmönnum í félaginu og er hæfi þeirra nú til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu, samkvæmt upplýsingum þaðan. Þegar því er lokið, getur stjórnin tekið til starfa. Síðan gerir hún tillögu að nýrri stjórn Arion banka og mun FME síðan kanna hæfi tilnefndra stjórnarmanna.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion banka, hættir senn sem bankastjóri, en fjörutíu manns sóttu um starf bankastjóra Arion þegar það var auglýst laust til umsóknar í nóvember á síðasta ári, en Finnur var ekki meðal umsækjenda.

Það verður eitt af fyrstu verkum nýrrar stjórnar Arion banka að ráða nýjan bankastjóra, en síðan þarf FME einnig að fara yfir hæfi hans áður en hann verður formlega kynntur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×