Viðskipti innlent

Allianz segist hafa bætt úr öllum þeim atriðum sem FME gagnrýnir

Allianz segist hafa bætt úr öllum þeim atriðum sem FME gerði athugasemd við en eftirlitið sendi frá sér athugasemdir og birti á vefsíðu sinni þar sem margvíslegar athugasemdir voru gerðar við starfshætti Allianz Íslands hf.

Meðal þess sem ámælisvert var talið var villandi orðalag um að lífeyrisgreiðslur séu greiddar út í evrum. Þær eru greiddar út í krónum. Þá var gerð athugasemd við að í skilmálum Allianz segir að sjóðsfélagi geti afsalað sér réttindum sínum og veðsett þau. Slíkt er óheimilt samkvæmt lögum.

Forstjóri Allianz, Eyjólfur Lárusson, segir í tilkynningunni að fyrir rúmu ári síðan kom FME í heimsókn til að gera úttekt á starfsemi Allianz.

Sú úttekt leiddi í ljós að starfsemi félagsins væri samkvæmt lögum og reglum er starfsemin heyrði undir en þó vorur nokkur atriði sem FME taldi að mættu betur fara að.

Svo segir orðrétt:

Frá því að þessi úttekt var gerð hefur Allianz unnið að því að lagfæra öll þau atriði er bent var á að betur mætti fara. Voru fengnir færustu sérfræðingar til verksins svo allt sé eins og stafur á bók, varðandi starfsemi félagsins.

Þess má geta að Allianz er 120 ára gamalt fyrirtæki með trausta og mikla sögu og er mikil áhersla lögð á það að vinna eftir settum lögum og reglum hverju sinni. Allianz tekur því mikið mark á athugasemdum FME og vill árétta að öll þau atriði er sett voru fram í skýrslunni fyrir ári síðan hafa verið tekin til skoðunar og leiðrétt þar sem við á.

Allianz harmar ef þessi skýrsla sem vitnað er í , hefur valdið áhyggjum hjá einhverjum en vill undirstrika að kappkostað er að vinna í einu og öllu eftir settum reglum og lögum.


Tengdar fréttir

FME gerir athugasemdir við starfshætti Allianz

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur gert margvíslegar athugasemdir við starfshætti Allianz Íslands hf. Meðal þess sem ámælisvert var talið var villandi orðalag um að lífeyrisgreiðslur séu greiddar út í evrum. Þær eru greiddar út í krónum. Þá var gerð athugasemd við að í skilmálum Allianz segir að sjóðsfélagi geti afsalað sér réttindum sínum og veðsett þau. Slíkt er óheimilt samkvæmt lögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×