Viðskipti innlent

Rafbíllinn ók hringveginn á 2.500 krónur

Rafbílinn fyrir utan Suðurhlíðarskóla.
Rafbílinn fyrir utan Suðurhlíðarskóla.

Þrír tæknifræðingar frá Háskólanum í Reykjavík óku hringinn í kringum landið á rafmagnsbíl sem þeir smíðuðu í námi sínu við tækni- og verkfræðideild HR og var rafmagnskostnaðurinn um 2.500 krónur. Til samanburðar var eldsneytiskostnaður dísilbíls, sem fylgdi þeim hringveginn, um 40 þúsund krónur.

Í tilkynningu segir að tæknifræðingarnir þrír luku ferð sinni í dag en eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta sinn sem rafmagnsbíll er keyrður hringveginn. Ferðalagið tók sex daga og komu þeir við í tíu grunnskólum víða um land þar sem þeir fræddu nemendur um tæknifræðinám.

Rafmagnsbíllinn er sparneytinn og umhverfisvænn. Í stað þess að fylla hann af bensíni er honum einfaldlega stungið í samband líkt og gert er með farsíma.

Guðjón Hugberg Björnsson, einn tæknifræðinganna, segir að þeir hafi hlaðið bílinn sextán sinnum á leiðinni. „Bílnum var stungið í samband í félagsheimilum, fjárhúsum, grunnskólum og á bensínstöðvum," útskýrir hann. Félagar hans heita Hjörtur Már Gestsson og Hrafn Leó Guðjónsson.

Guðjón segir að nemendur grunnskólanna hafi tekið þeim mjög vel og verið áhugasamir um bílinn. „Við gerðum með þeim lítinn rafmagnsmótor á fimm mínútum og sýndum þeim hvernig ætti að láta klukku ganga á kókbatteríi," segir hann.

Síðasti viðkomustaður tæknifræðinganna var Suðurhlíðarskóli í Reykjavík. Því næst keyrðu þeir lokakaflann í Nauthólsvíkina þar sem starfsfólk og nemendur HR tóku vel á móti þeim










Fleiri fréttir

Sjá meira


×