Viðskipti innlent

SA: Umhverfisráðherra að geðjast þröngum flokkshagsmunum

Samtök atvinnulífsins (SA) gagnrýna Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra harðlega á heimasíðu sinni vegna ákvörðunar hennar um virkjanir í neðrihluta Þjórsár.

SA segir það blasa við að ákvörðun ráðherra er ómálefnaleg og í andstöðu við margra ára venju og góða stjórnsýsluhætti. Það er til samræmis við önnur vinnubrögð ráðherra að tefja mál. Synjunin er einungis til þess fallin að geðjast þröngum flokkshagsmunum Vinstri grænna sem ályktuðu í ágúst sl. um virkjanir við Þjórsá og fólu „þingflokki og ráðherra VG að sjá til þess að ekki verði í þær ráðist".

Ennfremur segir að um leið tryggir ráðherra minni hagvöxt en ella, meira atvinnuleysi, minni kaupmátt almennings og takmarkar getu ríkissjóðs og sveitarfélaga til að verja velferðarkerfið í landinu.

„Á undanförnum árum hefur umhverfisráðherra ítrekað staðfest skipulagstillögur sveitarfélaga þar sem framkvæmdaaðilar hafa greitt kostnað vegna breytinga á aðalskipulagi. Þessi háttur hefur tíðkast í mörg ár og aldrei verið gerð við það athugasemd.

Dæmi eru um sveitarfélög sem gert hafa sérstakar samþykktir í þessum efnum þannig að kostnaður við breytingu á aðalskipulagi falli á þann sem breytingarinnar óskar. Þann 29. janúar skrifaði umhverfisráðherra hins vegar tveimur sveitarfélögum bréf og synjaði staðfestingar aðalskipulagi þeirra vegna þess að hrepparnir gerðu samkomulag um að framkvæmdaaðili greiddi hluta kostnaðar við gerð aðalskipulags.

Að auki má nefna að það er ekkert í skipulagslögum sem bannar sveitarfélögum að innheimta áfallinn kostnað vegna breytinga á skipulagi sem kominn er til vegna einstakrar framkvæmdar. Það er jafnframt eðlilegt að þessi háttur sé hafður á í stað þess að leggja þennan kostnað á íbúa sveitarfélaga í formi almennra skatta.

Ákvörðun umhverfisráðherra að synja umræddum skipulagstillögum staðfestingar eftir 11 og 14 mánuði er þannig í andstöðu við fyrri afstöðu ráðuneytisins, þá stefnu sem ríkt hefur og þau vinnubrögð sem sveitarfélögin hafa geta gengið út frá," segir m.a. á heimasíðu SA.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×