Viðskipti innlent

Landsframleiðslan á mann enn há á Íslandi

Greining Íslandsbanka fjallar í dag um breytingar á landsframleiðslunni á Íslandi í kreppunni. Þar segir að áhugavert er í því sambandi að skoða kaupmátt landsframleiðslunnar á mann en á þann mælikvarða stóð Ísland afar vel fyrir hrunið með eina hæstu landsframleiðslu á mann í heimi. Sú staða versnar ekki mjög mikið þrátt fyrir kreppuna.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að þannig var Ísland með 8. hæstu landsframleiðslu á mann svona mælda í samanburði 33 iðnvæddra ríkja í gagnagrunni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) árið 2007. Árið 2009 var landið komið í 12 sæti í þessum 33 ríkja samanburði. Þetta segir að þrátt fyrir kreppuna eru efnahagsleg lífsgæði hér á landi góð í alþjóðlegum samanburði metin með þessum hætti.

Kaupmáttur landsframleiðslu á mann var þannig í fyrra svipaður hér á landi og hann var í Danmörku, Ástralíu og Svíþjóð. Hann var hins vegar 25% hærri í Bandaríkjunum en 6% lægri í Bretlandi. Ýmis Evrópuríki standa afar illa á þennan mælikvarða. Þannig er landsframleiðsla á mann svona mæld einungis 59% í Portúgal af því sem hún er hér, 76% á Írlandi og 79% á Ítalíu.

Oft er það svo að Ísland er talið vera stærra hagkerfi en það er í raun. Samkvæmt samantekt AGS á landsframleiðslu einstakra landa metið í dollurum var landsframleiðslan hér á landi 11,8 milljarðar bandaríkjadala í fyrra. Er þetta 0,08% af landsframleiðslunni í Bandaríkjunum á sama tíma og 0,5% af landsframleiðslu Bretlands.

Í samanburði við hin norðurlöndin er íslenska hagkerfið heldur ekki stórt. Í fyrra var landsframleiðslan hér á landi 2,9% af stærð sænska hagkerfisins, 3,2% af stærð norska hagkerfisins, 4,9% af stærð finnska hagkerfisins og 3,8% af stærð danska hagkerfisins.

Íslenska hagkerfið hefur á þennan mælikvarða, og flesta aðra líka, skroppið umtalsvert saman í fjármálakreppunni. Þannig var landsframleiðslan hér á landi 20,3 milljarðar bandaríkjadala á árinu 2007 metið á gengi þess tíma. Þá var það 0,14% af stærð bandaríska hagkerfisins árið 2007 og 0,73% af stærð breska hagkerfisins. Einnig var það þá 4,5% af stærð sænska hagkerfisins, 5,2% af stærð þess norska, 8,3% af stærð finnska hagkerfisins og 6,6% af stærð danska hagkerfisins.

Flækja má ofangreindan samanburð með því að bera saman hversu mikið landsframleiðslan kaupir á hverjum stað, þ.e. að finna raunvirði landsframleiðslunnar og hvernig hún hefur þróast í fjármálakreppunni. Er þá tekið tillit til þess að hér á landi er margt umtalsvert ódýrara í dag í dollurum talið en það var fyrir kreppuna. Er þessu ágætlega lýst með raungengi krónunnar sem nú er í sögulegu lágmarki og var í fyrra á mælikvarða hlutfallslegs verðlags 36% lægra en það var árið 2007.

Þetta breytir því svo sem ekki að íslenska hagkerfið er lítið en sýnir að kaupmáttur landsframleiðslunnar hefur skroppið minna saman síðan 2007 en hreinn samanburður í dollurum gefur tilefni til að ætla. Mælt í jafnvirðisgildi gjaldmiðla (PPP) var landsframleiðslan hér á landi 0,09% af landsframleiðslunni í Bandaríkjunum árið 2007 en er nú 0,08%. Í samanburði við breska hagkerfið hefur það íslenska svona metið farið úr 0,57% á þessum tíma niður í 0,55%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×