Viðskipti innlent

Sennilegt að Íslandspóstur hafi misnotað markaðsráðandi stöðu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Samkeppniseftirlitið segir sennilegt að Íslandspóstur hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Mynd/ arnþór.
Samkeppniseftirlitið segir sennilegt að Íslandspóstur hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Mynd/ arnþór.
Sennilegt er að Íslandspóstur hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína í samskiptum sínum við Póstmarkaðinn þegar síðarnefnda fyrirtækið leitaði samninga víð Íslandspóst. Þetta kemur fram í bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá því í dag sem fengin er eftir ítarlega rannsókn. Rannsóknin fól meðal annars í sér húsleit á starfstöðvum Íslandspósts hf. vegna meintra brota.

Samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er Íslandspósti skylt að semja við Póstmarkaðinn um móttöku og dreifingu pósts í samræmi við gjaldskrá Íslandspósts fyrir stórnotendur. Skulu viðskiptaskilmálar vera almennir þannig að fyrirtæki sem eiga í samskonar viðskiptum við Íslandspóst njóti sömu kjara.

Samkeppniseftirlitið segir að fyrrgreind brot séu alvarleg og til þess fallin að raska samkeppni. Einnig sé nægilega líklegt að bið eftir endanlegri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins geti leitt til röskunar á samkeppni. Af þeim sökum sé talið nauðsynlegt að beina þeim fyrirmælum til Íslandspósts að semja við Póstmarkaðinn á tilteknum forsendum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×