Viðskipti innlent

Framtakssjóðurinn eygir von um að ná aftur hluta af tapi lífeyrissjóðanna

„Til greina kemur að selja erlendum aðilum hlut í Framtakssjóðnum,“ segir framkvæmdastjóri hans. Hann blæs á gagnrýni á fjárfestingar sjóðsins. Markaðurinn/GVA
„Til greina kemur að selja erlendum aðilum hlut í Framtakssjóðnum,“ segir framkvæmdastjóri hans. Hann blæs á gagnrýni á fjárfestingar sjóðsins. Markaðurinn/GVA
„Það gefur auga leið að í hruninu fóru fjölmörg góð fyrirtæki illa. Þau eru í tímabundnum erfið­leikum, lentu inni í bönkunum og bjóðast nú til kaups. Við ætlum að nýta þetta tækifæri," segir Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands. Sextán lífeyrissjóðir stofnuðu sjóðinn í desember í fyrra.

Finnbogi hefur lýst því yfir að með sjóðnum eygi lífeyrissjóðirnir tækifæri til að endur­heimta hluta þeirrar glötuðu ávöxtunar sem hvarf í hruninu. „Ég trúi því að þessar fjárfestingar skili góðri ávöxtun," segir hann. Markmiðið er að minnsta kosti fimmtán prósenta ársávöxtun. „Ég yrði ekki ánægður með minna."

Lokaður sjóður
1
Framtakssjóðurinn er byggður á erlendri fyrirmynd einkaframtakssjóða (e. private equity funds). Sjóðirnir safna fjárfestum í ákveðinn tíma áður en þeim er lokað. Stefnt er á að loka dyrum Framtakssjóðsins á fyrstu mánuðum næsta árs.

Gert er ráð fyrir að fjárfestingum Framtakssjóðsins verði lokið fyrir árslok 2013. Stefnt er að því að hann eigi eignir í fjögur til sjö ár en selji þær síðan eða skrái á hlutabréfamarkað.

Gríðarleg kaupgeta
2
Stefnt er að því að Framtaks­sjóðurinn ráði yfir sextíu milljörðum króna. Samkvæmt reglum Framtakssjóðsins er lágmarksfjárfesting hans tvö hundruð milljónir króna en hámarksfjárfesting í einu verkefni nemi fimmtán prósentum af stærð hans. Fari sjóðurinn í sextíu milljarða getur hann varið níu milljörðum að hámarki í kaup á einu fyrirtæki.

Skoða öll tækifæri
3
Einu kaup sem Framtaks­sjóðurinn hefur lokið er þrjátíu prósenta hlutur í Icelandair Group. Áreiðanleikakönnun stendur enn yfir á eignarhaldsfélaginu Vestia, sem sjóðurinn kaupir af Landsbankanum fyrir 19,5 milljarða króna. Búist er við að henni ljúki í lok mánaðar. Hljóti einhver fyrirtækjanna ekki náð fyrir augum Framtakssjóðsins verða þau send aftur til föðurhúsa.

Eins og sést á meðfylgjandi töflu snerta eignir Framtakssjóðsins flesta atvinnugeira nema helst fjármálageirann. Finnbogi segir alla möguleika í skoðun. „Ég hef frekar séð fyrir mér að lífeyrissjóðirnir muni sjálfir fjárfesta beint í bönkunum. Mér þykir það líklegast, en það er ekkert útilokað að Framtakssjóðurinn yrði meðfjárfestir í slíku ef áhugaverð tækifæri gefast," segir hann.

Gagnrýni svaraðFramtakssjóðurinn hefur sætt gagnrýni fyrir fjárfestingar sínar, ekki síst í fyrirtækjum sem eiga í samkeppni við önnur.

Finnbogi segir fjárfestingar Framtakssjóðsins ekkert frábrugðnar fjárfestingum erlendra lífeyrissjóða. Hann nefnir kaup danskra sjóða á bankanum FIH af skilanefnd Kaupþings.

„Þeir sem halda þessu fram eru í raun að segja að lífeyrissjóðirnir eigi ekki að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum. Ég er algerlega ósammála þessu sjónarmiði. Satt best að segja veit ég ekki hvernig íslenskt atvinnulíf og lífsskilyrði á Íslandi mundu þróast ef lífeyrissjóðirnir okkar myndu algerlega neita að koma að fjárfestingum í nýsköpun, þróun og endur­reisn íslensks atvinnulífsins," segir hann og bendir á að lífeyris­sjóðir um heim allan fjárfesti í atvinnufyrirtækjum sem eigi í samkeppni.

Erlendir fjárfestarErlendir fjárfestar hafa sýnt áhuga á því að kaupa hlut í Framtakssjóðnum. Finnbogi segir það koma vel til greina. „Það væri að mínu mati mjög jákvætt fyrir okkur að fá áhættufé inn í landið með þeim hætti. Það liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir munu alltaf eiga meirihluta hlutafjár í Framtakssjóðnum, en ég myndi taka því fagnandi ef erlendir aðilar vildu fjárfesta í sjóðnum," segir hann. Málið er í skoðun og engin niðurstaða komin í það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×