Viðskipti innlent

Danske Bank: Markaðurinn mun bjarga Íslandi

Per Magnussen höfuðgreinandi (senioranalytiker) Danske Bank segir að öll líkindi séu til þess að Íslendingar fái lán á alþjóðamarkaði þrátt fyrir að hafa hafnað Icesavesamningnum með yfir 90% meirihluta.

„ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geta ekki leyft það að vesturevrópsk þjóð verði gjaldþrota," segir Per Magnussen í samtali við börsen.dk. „Slíkt myndi hafa miklar sálrænar afleiðingar fyrir markaðinn."

Magnussen segir að vísu séu bæði Bretar og Hollendingar aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) og ef ekki náist samkomulag við þjóðirnar um Icesave gæti dregið úr vilja AGS til að lána Íslandi. Hinsvegar muni óttinn við þjóðargjaldþrot tryggja að Íslandi fái ný lán.

„Við erum að tala um gífurlega ótrygga stöðu með óttanum um þjóðargjaldþrot," segir Magnussen. „Menn munu ekki vilja taka áhættuna á að vesturevrópskt land verði gjaldþrota. Slíkt hefur aldrei gerst á seinni tímum."

Magnussen telur að ef Ísland lendi í þjóðargjaldþroti muni slíkt hækka ýmsan kostnað á vestrænum mörkuðum. „Þetta mun skapa áhættufælni og menn munu grípa til allra ráða til að forðast þá stöðu," segir Magnussen.

Fram kemur í umfjöllun börsen.dk að matsfyrirtækið Moody´s hefur aðvarað um að lækkun á lánshæfiseinkunn Íslands sé framundan. Hvað þetta varðar segir Magnussen: „Menn vera að standa klárir á því að fjárfesting á Íslandi er áhættufjárfesting. Mikil áhættufjárfesting."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×