Viðskipti innlent

Fíton fékk fimm Lúðra

Auglýsingastofan Fíton fékk fimm Lúðra í gær þegar Íslensku auglýsingaverðlaunin voru afhent í 24. sinn. 347 verk voru send inn í keppnina að þessu sinni en verðlaunin eru veitt í 14. flokkum auk þess sem almenningi gafst kostur á að velja bestu herferð ársins í vefkosningu.

Í tilkynningu segir að verk frá Fíton urðu hlutskörpust í flokki herferða, markpósts, umhverfisgrafíkur og í opnum flokki, auk þess sem almenningur taldi herferðina 'Essasú?' frá Vodafone þá bestu á árinu 2009.

Að auki hlaut Fíton verðlaunin fyrir besta markpóstinn, „Taktu dolluna - Golfmót VÍS", í opnum flokki, „Essasú í World Class" og umhverfisgrafík, „Risafrelsi - Sorrý að ég steig á bílinn þinn" fyrir Vodafone.

Í gær voru einnig birtar niðurstöður könnunar meðal markaðsfólks um það hvaða stofur stæðu öðrum framar á Íslandi. Niðurstöðurnar voru óvenju afgerandi í ár en um 40% þátttakenda töldu Fíton skara fram úr í flokki íslenskra auglýsingastofa.

„Við erum ótrúlega stolt af þessum árangri", segir Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Fítons. „ Við höfum lagt hart að okkur á undanförnum misserum og unnið náið með viðskiptavinum okkar í leit að snjöllum hugmyndum og lausnum sem ríma við það einkennilega ástand sem ríkir í þjóðfélaginu. Ætli tölvuteiknaður froskur sem slær í gegn sé ekki lýsandi fyrir ástandið í dag. Svo má ekki gleyma árangursríku samstarfi við systurfyrirtæki okkar Auglýsingamiðlun og hreyfimyndafyrirtækið Miðstræti."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×