Viðskipti innlent

Greining: Kaupmáttur launa lækkar áfram til ársloka

Greining Íslandsbanka telur að raunlaun muni halda áfram að lækka fram eftir þessu ári. Verðbólga er enn nokkur, og mun hún fyrst hjaðna fyrir alvöru þegar kemur fram á vorið.

„Á sama tíma eru ekki frekari samningsbundnar launahækkanir í farvatninu fyrr en um mitt árið, auk þess sem launaskrið er nú með minnsta móti vegna mikils slaka á vinnumarkaði. Ef verðbólguþróun verður hins vegar í takti við spár okkar má búast við að raunlaun taki að hækka að nýju á næsta ári," segir í Morgunkorni greiningarinnar þar sem fjallað er um málið og vitnað í nýjar tölur Hagstofunnar frá því í morgun.

Laun hækkuðu um 1,6% á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs síðasta árs. Laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 1,9% frá fyrri ársfjórðungi og laun opinberra starfsmanna hækkuðu um 0,8% á sama tímabili. Þetta er meiri talsvert meiri hækkun en sést hefur undanfarna ársfjórðunga sem rekja má til kjarasamninga sem tóku gildi á tímabilinu.

Frá fyrri ársfjórðungi hækkuðu laun sérfræðinga minnst eða um 1,1%. Mest hækkuðu laun þjónustu-,sölu-, og afgreiðslufólks á sama tímabili eða um 2,7%. Raunlaun lækkuðu hinsvegar á sama tímabili en kaupmáttur launa dróst saman um tæplega 1% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs frá fyrri fjórðungi sama árs.

Þá voru regluleg laun að jafnaði 3,2% hærri á fjórða ársfjórðungi síðasta árs en á sama ársfjórðungi árið á undan. Kaupmáttur launa rýrnaði um 5% á sama tímabili. Hefur kaupmáttur launa þá lækkað um tæplega 12% frá því að hann náði hámarki í síðustu uppsveiflu á fjórða ársfjórðungi 2007.

Atvinnuleysi á 4. ársfjórðungi síðasta árs var 6,7% samanborið við 4% atvinnuleysi á sama ársfjórðungi árið 2008 og 1,9% atvinnuleysi á sama tímabili 2007. Hagstofan mælir atvinnuleysi með nokkuð öðrum hætti en Vinnumálastofnun, og skýrir það hvers vegna atvinnuleysishlutfallið mælist talsvert lægra í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar en í mánaðarlegum tölum Vinnumálastofnunar yfir skráð atvinnuleysi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×