Viðskipti innlent

Planck stofnunin býður stjórnvöldum lausn á Icesave

Planck stofnunin í Hollandi (Planck Foundation) hefur boðið íslenskum stjórnvöldum áætlun sem felur í sér að Íslendingar borgi Icesave skuldina með orkusölu til Bretlands og Hollands. Orkan yrði send í gegnum háspennukapal sem þegar eru framleiddir hjá Siemens og ABB. Slíkir kaplar eru í notkun í Japan, Kína, Bandaríkjunum og fleiri löndum.

 

Hazel Henderson skrifar grein um málið á vefsíðuna CSRwire Talkback en þar vitnar hún í fjármálamanninn Gijis Graafland, eigenda Planck, sem segir að Íslendingar geti auðveldlega orðið Saudi-Arabar Norðursins með sölu á orku af háhitasvæðum sínum.

 

Orka fyrir skuldir áætlunin (The Energy for Dept plan) felur í sér að sett verið á stofn ný mynt, KWH, sem yrði traustari en nokkur þjóðmynt og raunar traustari en gull í viðskiptum þessum að sögn Henderson. Sú mynt yrði notuð til að mæla greiðslur Íslendinga upp í Icesave skuldina.

 

Henderson segir að meðal þeirra sem hafa áhuga á Orka fyrir skuldir áætluninni séu breskir þingmenn, seðlabankastjórar í nokkrum ESB löndum og víðar, fjárfestar í Bandaríkjunum og Kína og meðlimir Rómarklúbbsins.

 

Fram kemur í greininni að áætlunin hafi verið kynnt fyrir bæði Jóhönnu Sigurðardóttir forsætisráðherra og Ólafi Ragnar Grímssyni forseta Íslands. Þau gætu bæði verið tilbúin til að fallast á hana. Fari svo sé ekkert því til fyrirstöðu hjá Siemens eða ABB að undirbúa málið.

 

Stjórnvöld í ESB gætu lagt fram tryggingar sem gerðu lífeyrissjóðum kleyft að setja fjármagn í þessa áætlun enda fellur það vel að stefnu þeirra um langtímafjárfestingar.

 

Fjárfestar sem vita af Orku fyrir skuldir áætluninni bíða nú eftir grænu ljósi frá íslenskum stjórnvöldum. Hér er einkum um að ræða fjárfesta sem áhuga hafa á „grænum" og umhverfisvænum verkefnum. Henderson segir í lok greinar sinnar að áætlunin gæti orðið leiðarljós fyrir áætlun Sameinuðu þjóðanna sem gengur undir nafninu UN´s Global Green New Deal.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×