Erlent

Sváfu hangandi í beltum lokaðir inni í námu

Meira en 150 manns höfðu verið innilokaðir í námugöngunum síðan á pálmasunnudag.
fréttablaðið/ap
Meira en 150 manns höfðu verið innilokaðir í námugöngunum síðan á pálmasunnudag. fréttablaðið/ap

Kína, AP 115 kínverskir námuverkamenn björguðust í gær eftir rúmlega viku innilokun í námugöngum. Þeir lokuðust inni á pálmasunnudag þegar vatn flæddi niður í námuna.

Sumir þeirra höfðu borðað sag og trjábörk og fest sig með beltum við veggi námuganganna til þess að geta sofið án þess að drukkna. „Geturðu komið mér héðan út?“ spurði einn þeirra þegar björgunarmenn komu loksins.

Ættingjum mannanna hafi fundist björgunaraðgerðir ganga hægt. Meira en viku tók að dæla vatni úr námunni til þess að hægt væri að komast að mönnunum.

Urðu þá fagnaðarfundir, sem sýnt var frá beint í kínversku sjónvarpi. Tárvotir björgunarmenn sáust fallast í faðma þegar námuverkamönnunum var hjálpað út, vafðir teppum og síðan fluttir á brott með sjúkrabifreiðum.

„Kraftaverk varð loksins,“ sagði Liu Dezheng, talsmaður björgunarsveitanna.

Enn voru þó 38 menn eftir inni í göngunum. Óvíst var hvort eða hvenær takast mætti að bjarga þeim út, og ekki fengust upplýsingar um hvort í þeim hefði heyrst.

Námuslys eru enn tíð í Kína, þótt þeim hafi fækkað nokkuð síðustu ár.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×