Viðskipti innlent

Rannsókn SFO á Kaupþingi lýkur fyrir jól

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office, mun fljótlega ákveða hvort einhver verður ákærður í Bretlandi vegna falls Kaupþings. Þetta kemur fram á vef breska blaðsins Mail on Sunday.

Í greininni kemur fram að efnahagsbrotadeildin hafi aðstoðað íslensk yfirvöld við að rannsaka hrun Kaupþings í Bretlandi síðan í ágúst í fyrra. Í desember í fyrra hafi efnahagsbrotadeildin síðan staðfest að hún hafi byrjað sína eigin rannsókn á hruni Kaupþings.

Eins og áður hefur komið fram er verið að rannsaka óeðlilegar lánafyrirgreiðslur Kaupþings til breskra viðskiptavina. Þá er einnig verið að kanna hvort ákveðnir viðskiptavinir hafi fengið að taka pening út úr Kaupþingi kvöldið sem bankinn hrundi.

Heimildarmaður hjá Serious Fraud Office segir að forstjóri stofnunarinnar telji Kaupþingsmálið vera mjög mikilvægt og vilji taka ákvörðun um ákæru fyrir jól.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×