Viðskipti innlent

Lánastofnanir hundsuðu skilaboð frá FME

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lánastofnanir fóru ekki eftir tilmælum sem Fjármálaeftirlitið sendi þeim í dreifibréfi þann 14. september síðastliðinn um meðferð fjármögnunarleigusamninga þegar greiðsluseðlar voru sendir út nú um mánaðamótin.

Í bréfinu fór Fjármálaeftirlitið þess á leit við lánastofnanir að meðferð fjármögnunarleigusamninga yrðu í samræmi við tilmæli sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn gáfu út 30. júní síðastliðinn, eftir að dómur Hæstaréttar í gengistryggingarmálinu var kveðinn upp.

Fjármögnunarleigusamningar eru þeir samningar sem mörg fyrirtæki nýttu til að fjármagna starfsemi sína áður en krónan hrundi. Lánastofnanirnar hafa hingað til hafnað því að gengisdómur Hæstaréttar frá 16. júní síðastliðinn eigi við um slíka samninga. Því hafa vextir og afborganir vegna slíkra samninga verið innheimtir frá fyrirtækjum með sama hætti og gert var áður en dómur var kveðinn upp, í stað lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands á hverjum tíma út frá upphaflegum höfuðstól.

Vísir sagði í síðustu viku frá fyrirtækinu Smákranar ehf. sem hefur stefnt Lýsingu vegna fjármögnunarleigusamnings sem fyrirtækið gerði til að fjármagna kaup á krana árið 2007. Smákranar krefjast þess að samningurinn verði gerður upp í samræmi við dóm Hæstaréttar frá 16. júní. Þessu hafnar Lýsing og segir að hæstaréttardómurinn eigi ekki við um fjármögnunarleigusamninga. Einar Hugi Bjarnason, lögmaður hjá Ergo lögmönnum, sem flytur málið gegn Lýsingu er ósammála og telur að dreifibréfið frá FME staðfesti málatilbúnað Smákrana. Einar staðfesti í samtali við Vísi að ekki hafi verið tekið mark á tilmælum FME þegar að Smákranar fengu sendan greiðsluseðil núna um mánaðamótin.

Vísir gerði ítrekaðar tilraunir til þess að ná tali af framkvæmdastjóra Lýsingar fyrir helgi en þær reyndust árangurslausar. Kjartan Georg Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP fjármögnunar, segir að í dreifibréfinu frá Fjármálaeftirlitinu felist ekki tilmæli sem séu lagalega bindandi. Það sé tekið skýrt fram í bréfinu. Núna sé fyrir dómstólum mál um fjármögnunarleigusamninga. Það sé stutt í niðurstöðu í því máli og þess dóms verði beðið, enda sé það dómurinn sem ráði endanlega. Hann bendir á að þó að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafi sent tilmæli eftir að hæstaréttardómur féll 16. júní síðastliðinn hafi ekkert verið gert með þau fyrr en dómur um vaxtaprósentu fell í september.

Kjartan segir að eftir sem áður standi mönnum til boða að semja við SP fjármögnun um úrræði ef þeir vilji lækka greiðslubyrði á sínum samningum þangað til að dómur fellur.


Tengdar fréttir

FME vill að fyrirtæki greiði í samræmi við dóm Hæstaréttar

Fjármálaeftirlitið beindi þeim tilmælum til lánastofnana á dögunum að meðferð fjármögnunarleigusamninga verði í samræmi við tilmæli sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn gáfu út 30. júní síðastliðinn, eftir að dómur Hæstaréttar í gengistryggingarmálinu var kveðinn upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×