Viðskipti innlent

Gistinóttum fækkaði lítillega milli áranna 2008 og 2009

Gistinætur á hótelum árið 2009 voru 1.333.200 og fækkar lítillega frá árinu 2008 þegar gistinætur voru 1.339.900. Á flestum landsvæðum fækkar gistinóttum á milli ára eða standa í stað. Hlutfallslega fækkar gistinóttum mest á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða en fjölgar mest á Norðurlandi og Suðurlandi.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að gistinóttum Íslendinga fækkar um 10% frá árinu 2008 á meðan gistinóttum erlendra ríkisborgara fjölgar um rúm 2%.

Gistinætur á hótelum í desember síðastliðnum voru 55.700 en voru 58.800 í sama mánuði árið 2008. Gistinóttum fækkaði í öllum landshlutum nema á Suðurlandi og Norðurlandi.

Á Austurlandi fækkaði gistinóttum um 21% miðað við desember 2008, úr 560 í 450. Gistinætur á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða voru 600 og fækkaði um 19% milli ára.

Á höfuðborgarsvæðinu voru 46.000 gistinætur á hótelum í desember sem er fækkun um tæp 9% frá desember 2008. Á Suðurnesjum fækkaði gistinóttum einnig lítillega, voru 2.800 í desember sem er fækkun um tæp 4% frá fyrra ári.

Gistinætur á hótelum á Suðurlandi voru rúmlega 4.000 í desember og fjölgaði um tæp 44% frá desember 2008. Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum í desember einnig, úr 1.500 í 1.800 eða um tæpt 21%

Gistinóttum erlendra ríkisborgara fækkar um tæp 7% frá desember 2008 á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgar um 2% .










Fleiri fréttir

Sjá meira


×