Viðskipti innlent

BM Vallá fær heimild til greiðslustöðvunar

Í dag, miðvikudaginn 3. febrúar, var BM VALLÁ hf. veitt heimild til greiðslustöðvunar svo unnt verði að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Undanfarið ár hefur starfsfólkið unnið hörðum höndum að endurskipulagningu félagsins með víðtækum sparnaðar- og hagræðingaraðgerðum í góðri samvinnu við helstu lánadrottna félagsins.

Í tilkynningu segir að áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu BM VALLÁ hafa verið kynntar helstu lánveitendum félagsins. Að höfðu samráði við þá var talið rétt að óska formlegrar greiðslustöðvunar með aðstoðarmanni svo ljúka mætti verkinu á hlutlægan og skipulegan hátt.

Frá miðju ári 2008 hefur orðið gríðarlegur samdráttur í verklegum framkvæmdum hér á landi sem endurspeglast í minnkandi umsvifum félagsins. Árið 2007 var samanlögð velta BM VALLÁ tæplega 10 milljarðar króna og starfsmenn liðlega 500.

Í lok ársins 2009 var starfmannafjöldinn kominn niður í 232 og heildarvelta fyrirtækisins var tæplega 5 milljarðar. Veltan í krónum skrapp saman um helming milli áranna. Þá hefur gengisfall krónunnar tvöfaldað langtímaskuldir félagsins og orsakað miklar verðhækkanir á hráefnum og aðföngum sem hafa haft veruleg áhrif á reksturinn.

Á einstökum framleiðslusviðum fyrirtækisins varð magnsamdráttur sem nam frá 40-70%. Mestur samdráttur var í nýframkvæmdum en minni í sérstökum verkefnum svo sem við Bolungarvíkurgöng og jarðgöngin í Héðinsfirði. Þá reyndist sala á framleiðsluvörum til viðgerða og viðhalds fasteigna halda vel sjó. Sama er að segja um sölu á vörum fyrir garða og umhverfið.

Eftir mikinn samdrátt undanfarinna missera sjást nú loks fyrstu merki um viðsnúning. Áætlanir félagsins fyrir árið 2010 gera ráð fyrir að botni verði náð á fyrsta ársfjórðungi og að velta ársins verði á bilinu 5.2 - 5.6 milljarðar króna og að afkoman á árinu verði vel viðunandi að lokinni endurskipulagningu.

Á síðustu tveim árum hefur BM VALLÁ notið velvildar og þolinmæði lánardrottna sinna, stórra sem smárra og kann bestu þakkir fyrir það. Þá má ekki gleyma mikillar og góðrar vildar þúsunda viðskiptavina sem sumir hverjir hafa átt viðskipti við félagið frá upphafi. Þetta hefur skipt sköpum í þeim lífróðri sem staðið hefur linnulaust frá því á árinu 2008.

BM VALLÁ hf. rekur starfsemi sína á 11 stöðum á landinu. Helstu framleiðsluvörur fyrirtækisins eru steinsteypa, völsun þakstáls og áls, húshlutaeiningar úr steinsteypu, stáli og límtré, hellur og steinar og fleiri vörur til garða og umhverfis, þurrblöndur til múrverks og margt fleira. Þá starfrækir félagið hönnunardeild fyrir byggingalausnir auk deildar sem sérhæfir sig í dúklagningu þaka, og rekstur stoð- og þjónustudeilda svo sem véla- og bifreiðaverkstæðis rafmagn-, blikk- og járnsmíðaverkstæðis svo nokkuð sé nefnt.

Aðstoðarmaður félagsins í greiðslustöðvunarferlinu er Óskar Sigurðsson hrl .






Fleiri fréttir

Sjá meira


×