Viðskipti innlent

Lánveitingu í Búðarhálsvirkjun enn frestað

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Stjórn Evrópska fjárfestingarbankans frestaði enn og aftur í síðustu viku að afgreiða lán til Landsvirkjunar sem ætlað var til að fjármagna framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun. Fyrr í sumar var komið á framfæri skilaboðum til íslenskra stjórnvalda um að lánveitingin væri háð lausn Icesave-deilunnar.

Mánuður er liðinn frá því tilboð voru opnuð í stærstu byggingarþætti Búðarhálsvirkjunar, smíði stöðvarhúss, gerð aðrennslisganga og stíflu. Sá fyrirvari er á útboðinu að ekki verður gengið til samninga við neinn bjóðanda á grundvelli tilboðanna fyrr en fjármögnun er tryggð.

Landsvirkjun hefur í því sambandi meðal annars horft til Evrópska fjárfestingarbankans. Búið er að semja um alla þætti lánsins, þar á meðal vexti, og hefur þess verið lengi beðið að stjórn bankans staðfesti lánveitinguna. Málið var tekið fyrir á fundi stjórnar bankans síðastliðinn þriðjudag og varð niðurstaðan sú að fresta málinu.

Þetta er í ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist. Um miðjan ágústmánuð bárust þær fréttir að stjórn bankans hefði frestað afgreiðslu lánsins en um leið komið á framfæri skilaboðum til íslenskra ráðamanna um að lánveitingin væri háð því að stjórn bankans vildi sjá merki þess að líkur væru á að Íslendingar næðu samkomulagi við Breta og Hollendinga um Icesave-reikningana.

Ljóst er að þessi ákvörðun evrópska fjárfestingarbankans í síðustu viku er enn eitt áfallið fyrir tilraunir stjórnvalda til að koma stórframkvæmdum í gang í landinu. Innan Landsvirkjunar reyna menn þó að afla lánsfjár frá fleiri aðilum og útiloka ekki að það takist á næstunni.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×