Viðskipti innlent

Sekt Byko lækkuð um sex og hálfa milljón

Sekt vegna afsláttabrots Byko milduð.
Sekt vegna afsláttabrots Byko milduð.

Áfrýjunarnefnd Neytendamála lækkaði sekt Byko úr tíu milljónum króna niður í þrjár og hálfa milljón fyrir að hafa blekkt neytendur þegar Byko auglýsti 20 prósent afslátt af málningu sem reyndist ekki raunverulegur afsláttur.

Byko hafði áður verið úrskurðað brotlegt af Neytendastofu vegna auglýsingabæklings sem fyrirtækið gaf út sumarið 2009. Þá voru nokkrar tegundir af málningu og pallaolíu auglýst með 20 prósent afslætti. Í ljós kom að verðið hafði í raun ekki lækkað auk þess sem viðmiðunarverð fylgdi ekki með.

Forsvarsmenn Byko sögðu að um mistök hefði verið að ræða og leiðréttu mistök sín stuttu síðar. Þeir voru svo úrskurðaðir til þess að greiða tíu milljónir. Þeim úrskurði vildu þeir ekki una og áfrýjuðu honum í kjölfarið.

Áfrýjunarnefndin telur að Byko hafi verið samstarfsfúst vegna rannsóknar Neytendastofu á málinu auk þess sem þeir reyndu að leiðrétta afsláttarverðið. Því var upphæðin lækkuð um sex og hálfa milljón króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×