Viðskipti innlent

Skilanefnd Glitnis sendi fimm mál til FME og saksóknara

Sigríður Mogensen skrifar

Skilanefnd Glitnis hefur hingað til sent fimm mál sem tengjast viðskiptum gamla bankans til Fjármálaeftirlitsins (FME) og sérstaks saksóknara til frekari rannsóknar. Skilanefnd Kaupþings og Landsbankans hafa jafnframt sent gögn og mál frá sér.

Í maí 2009 hóf heimsþekkta rannsóknarfyrirtækið Kroll störf fyrir skilanefnd Glitnis. Fyrirtækið hefur víðtæka reynslu af rannsókn afbrota sem tengjast hruni fyrirtækja. Kroll aðstoðar skilanefndina við rannsókn á viðskiptum gamla bankans og er markmiðið að rekja slóð fjármuna, leita uppi og endurheimta eignir, og upplýsa um brot sem kunna að hafa verið framin í tengslum við hrunið. Hlutverk Kroll er að skoða stóru myndina og það sem snýr að viðskiptum sem ná út fyrir landssteinana.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er hefur skilanefnd Glitnis hingað til sent fimm mál sem tengjast viðskiptum gamla bankans til FME og sérstaks saksóknara til frekari skoðunar. Í fjölmiðlum hefur komið fram að málefni eignarhaldsfélagsins Stím séu til rannsóknar, þar sem grunur leikur á markaðsmisnotkun en félagið keypti hlut í Glitni rétt fyrir hrun.

Stím-málið var eitt fyrsta málið sem tengt er meintum óeðlilegum viðskiptum sem rataði í fjölmiðla eftir hrunið.

Hjá öllum skilanefndunum starfa löggiltir endurskoðendur sem kafa ofan í einstök mál sem tengjast bankahruninu. Mun skilanefnd Landsbankans hafa sent nokkur mál til Fjármálaeftirlitsins sem hún telur að þarfnist frekari skoðunar.

Skilanefnd Kaupþings hefur jafnframt sent gögn í ýmsum málum til frekari rannsóknar eða skoðunar hjá yfirvöldum, samkvæmt heimildum. Þá hafa allar skilanefndirnar aðstoðað Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið við upplýsingaöflun um starfsemi gömlu bankanna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×