Viðskipti innlent

Skiptastjóri Fons kannar riftun arðgreiðslu

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Óskar Sigurðsson, lögmaður og skiptastjóri þrotabús Fons, er nú að skoða hvort hægt sé að rifta rúmlega fjögurra milljarða arðgreiðslu Fons til félags í eigu Pálma Haraldssonar í Lúxemborg ári fyrir bankahrun. Kröfur í þrotabú Fons nema 40 milljörðum króna.

Fons, eignarhaldsfélag Pálma Haraldssonar sem nú er gjaldþrota, greiddi Pálma Haraldssyni 4,4 milljarða króna í arð árið 2007, vegna rekstrarársins 2006 þegar Fons skilaði 28 milljarða hagnaði. Greiðslan rann til félagsins Matthews Holding SA í Lúxemborg, sem var í eigu Pálma og viðskiptafélaga hans Jóhannesar Kristinssonar. Í apríl á síðasta ári, óskaði Fons eftir gjaldþrotaskiptum og kröfur í þrotabúið nema 40 milljörðum króna. Meðal stærstu kröfuhafanna eru íslenskir viðskiptabankar.

Óskar Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Fons, sagði í samtali við fréttastofu að í skoðun væri að rifta umræddri arðgreiðslu og að niðurstöðu mætti vænta innan tveggja vikna. Hann sagði að fenginn hefði verið óháður endurskoðandi til að fara yfir málið, sem ekki væri tengdur stóru endurskoðunarskrifstofunum sem unnu fyrir Fons og tengd félög.

Samkvæmt lögum um um gjaldþrotaskipti eru þeir samningar riftanlegir sem fela í sér gjafagerninga eða ótilhlýðlilega ráðstöfun fjármuna og eru gerðir allt að 24 mánuðum áður en fyrirtæki leitaði fyrst eftir heimild til greiðslustöðvunar. Hvort af riftun verði ræðst m.a að því hvort arðgreiðslan til Matthews Holding telst lögmæt samkvæmt lögum um hlutafélög og reglum um reikningsskil.

Pálmi Haraldsson sagði í samtali við fréttastofu að um væri að ræða arðgreiðslu vegna innleysts hagnaðar rekstrarársins 2006. Þess vegna væri færsla vegna hans bókfærð í ársreikning fyrir árið 2007. Hann sagði að engar líkur væru á því að hægt yrði að rifta arðgreiðslunni þar sem Fons hefði verið gjaldfært félag á þeim tíma sem arðurinn var greiddur út.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×