Viðskipti innlent

Krefst kyrrsetningar eigna tveggja auðmanna

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Skattrannsóknarstjóri hefur krafist kyrrsetninga eigna tveggja auðmanna vegna ríflega hundrað milljóna króna skattakröfu á hendur þeim. Farið verður fram á tugi kyrrsetninga á næstu vikum, meðal annars á eignum útrásarvíkinganna. Skattrannsóknarstjóri segir bankareikninga hafa verið tæmda fyrir framan nefið á ríkinu.

Stefán Skjaldarson skattrannsóknarstjóri segir að ríkið hafi ekki átt annan kost en að kyrrsetja eignir þeirra sem eru til rannsóknar og hefði í raun þurft að bregðast fyrr við.

30. mars sl. voru samþykktar breytingar á lögum um tekjuskatt. Þær fela m.a. í sér að til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu í málum sem eru í rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra sé heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila ef hætta þykir á að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Stefán Skjaldarson, skattrannsóknarstjóri, segir að nú þegar sé búið að krefjast kyrrsetningar eigna.

Stefán segir að tugir mála muni fara þessa leið á næstu vikum. Miðað sé við að skattkrafan sem verður grundvöllur kyrrsetningarinnar nemi að lágmarki 50 milljónum króna. Endanleg skattkrafa sé þó ekki sama upphæð og krafist sé kyrrsetningar á.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×