Viðskipti innlent

World Class á spottprís

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir greiddu aðeins 25 milljónir króna fyrir rekstur World Class þegar þau keyptu hann af þrotabúi Þreks, sem var í eigu þeirra sjálfra. Eignin er metin á 500-700 milljónir króna.

Þrek ehf. var rekstrarfélag World Class og fór í þrot á síðasta ári, en kröfur í þrotabúið nema 2,2 milljörðum króna. Sama dag og félagið fór í þrot keypti Laugar ehf., annað félag í eigu hjónanna Björns Leifssonar og Hafdísar Jónsdóttur, rekstur World Class stöðvanna út úr fyrirtækinu á 25 milljónir króna. Fimm milljónir voru greiddar með reiðufé og 20 milljónir króna voru í formi yfirtöku á skuldum.

Sigurbjörn Þorbergsson, skiptastjóri þrotabús Þreks ehf., telur kaupsamninginn gjafagerning og sagðist í samtali við fréttastofu í dag ætla að höfða mál til riftunar á kaupunum, en hann telur World Class mun meira virði og metur fyrirtækið á 500-700 milljónir króna. Yfir 20 þúsund áskrifendur eru með líkamsræktarkort hjá fyrirtækinu.

Sigurbjörn óskaði eftir viðræðum við þau Björn og Hafdísi um þetta en þau höfnuðu því. Hann sagði því ekkert annað í stöðunni en að höfða mál.

Sigurbjörn segir að í kaupsamningnum hafi áskriftargrunnur fyrirtækisins ekki verið tilgreindur sem andlag kaupsamnings, aðeins lausafjármunir eins og augnskannar, tölvur og afgreiðslukassar. Hins vegar komi þar fram að Laugar ehf. taki við skuldbindingum gagnvart viðskiptavinum.

Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 hinn 29. október á síðasta ári hafnaði Björn Leifsson því alfarið að standa í kennitöluflakki, en stuttu áður höfðu hann og eiginkona hans keypt reksturinn út úr hinu gjaldþrota félagi.

Björn Leifsson sagðist í samtali við fréttastofu í dag ekki fallast á að kaupverðið hafi aðeins verið 25 milljónir, því í kaupunum hafi Laugar ehf. tekið yfir skuldbindingar gagnvart korthöfum með fyrirframgreidd kort sem námu 266 milljónum króna. Hann sagðist jafnframt ekki skilja hvernig skiptastjórann fengi út verð á bilinu 500-700 milljónir króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×