Viðskipti innlent

Endurskoðendur í þögn og afneitun

Íslenskir endurskoðendur eru í þögn og afneitun vegna bankahrunsins, segir Vilhjálmur Bjarnason lektor, í framhaldi af stefnu slitastjórnar Glitnis gegn PricewaterhouseCoopers fyrir afglöp í trúnaðarstarfi og vítaverða vanrækslu.

Stefnan gegn PricewaterhouseCoopers beinir sjónum að ábyrgð endurskoðenda á hruninu en slitastjórn Glitnis staðhæfir að hinir stefndu hefðu aldrei komið fram ráðagerðum sínum án hlutdeildar endurskoðendanna. Þeir hafi vitað um óeðlilega áhættu Glitnis, gróflega rangfært þá áhættu og þannig stuðlað að sviksamlegri fjáröflun bankans.

Ráðamenn PwC hafa ekki fengist í viðtal í dag. Þeir sendu hins vegar frá sér stutta yfirlýsingu en þar segja þeir að áritanir PricewaterhouseCoopers hafi byggst á þeim gögnum sem félagið hafði aðgang að á þeim tíma og það standi við áritun sína.

Vilhjálmur Bjarnason lektor segir að endurskoðendafyrirtækin hafi aðgang að öllum gögnum skjólstæðinga sinna. Ef þau fái ekki aðgang að gögnum eða telji sig vanta eitthvað þá geti endurskoðendafyrirtæki ekki skrifað upp á reikning. Það að lýsa því yfir að menn standi við reikning, þar sem stendur ekki steinn yfir steini, sé býsna djörf yfirlýsing, og afneitun á staðreyndum, segir Vilhjálmur.

PricewaterhouseCoopers var endurskoðandi bæði Glitnis og Landsbankans og fékk fyrir það samtals 425 milljóna króna tekjur á árinu 2007, en KPMG endurskoðaði Kaupþing sama ár fyrir 420 milljónir króna. Samtals nam endurskoðunarkostnaður bankanna þriggja á fimm ára tímabili fjórum milljörðum króna.

Vilhjálmur minnir á að eignamat bankanna hafi reynst út í bláinn. Það vanti 60-70 prósent upp á þær eignir séu fyrir hendi. Íslenskir endurskoðendur hafi samt skrifað upp á reikninga bankanna athugasemdalaust. En telur hann kominn tíma til að þeir viðurkenni ábyrgð sína á hruninu?

"Mér virðast viðbrögð þeirra í eitt og hálft ár, með þögn og afneitun, benda eindregið til þess að þeir ætli að leysa úr þessari spurningu einungis í réttarsal," segir Vilhjálmur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×