Viðskipti innlent

Vill að einn bankanna verði í erlendri eigu

Gylfi segir að hér fái Íslendingar annað tækifæri til þess að erlendur banki hefji starfsemi á Íslandi.
Gylfi segir að hér fái Íslendingar annað tækifæri til þess að erlendur banki hefji starfsemi á Íslandi.
Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra vill að einn af stóru bönkunum þremur verði í eigu erlends banka til frambúðar. Í samtali við Fréttastofu segir Gylfi að þar sé hann að horfa til Arion banka eða Íslandsbanka. Staða Landsbankans sé önnur en þessara tveggja banka.

Gylfi kom inn á þetta atriði í erindi sem hann hélt í morgun á ársfundi Samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja en sá fundur bar yfirskriftina Með traust að leiðarljósi. Hann segir að erlent eignarhald muni styrkja íslenska fjármálakerfið og auðvelda aðgang að lánsfé erlendis frá.

„Bæði Arion banki og Íslandsbanki eru nú í eigu kröfuhafa þrotabúa þeirra í gegnum eignarhaldsfélög en kröfuhafarnir eru að stærstum hluta erlendir," segir Gylfi. „Þótt tekið geti mörg ár að gera þrotabúin upp að fullu má búast við að Arion banki og Íslandsbanki vderði seldir úr þeim töluvert áður en uppgjörunum lýkur."

Gylfi segir að hér fái Íslendingar annað tækifæri til þess að erlendur banki hefji starfsemi á Íslandi. Á hann þar við að þegar Landsbankinn var seldur á sínum tíma hafði sænski bankinn SEB áhuga á að kaupa hann. Um það er m.a. fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×