Könnun Yfir helmingur Íslendinga, 53 prósent, telur spillingu hafa aukist hér á landi undanfarin þrjú ár. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar stofnunarinnar Transparency International, sem Capacent sá um fyrir hennar hönd í sumar. Fimmtán prósent telja að dregið hafi úr spillingu á sama tíma.
Um þúsund manns í hverju ríki eru spurðir um spillingu í heimalandi sínu. Alls tóku 91.500 manns frá 86 ríkjum þátt að þessu sinni.Þátttakendur eru beðnir að meta hversu mikil spilling viðgengst innan ólíkra þjóðfélagsstofnana, þar sem einkunnin 1 merkir óspillta stofnun en 5 gjörspillta.
Íslenskir stjórnmálaflokkar fá einkunnina 4,3, sem er aðeins yfir meðallagi. Viðskiptalífið fær hins vegar mikla útreið og einkunnina 4. Meðaltalið er 3,4 og hvergi meta heimamenn viðskiptalífið jafnspillt nema í Senegal, sem einnig fær einkunnina fjóra.
Aðrar stofnanir koma betur út. Alþingi fær einkunnina 3,7, lögreglan 2,2, fjölmiðlar 3,5, embættismenn 3,5, dómskerfið 2,7, almenn samtök 2,6, trúfélög 3,2 og menntakerfið 2,4. - sh