Viðskipti innlent

Capacent vinnur verkefni fyrir Alþjóðabankann

Að loknu alþjóðlegu útboði á síðasta ári ákvað IFC, sem er deild innan Alþjóðabankans að taka tilboði Capacent í ráðgjöf vegna vörudreifingarfjármögnunar.

Í tilkynningu segir að fjármögnun á vörudreifingu eða Supply Chain Financing (SCF) getur verið heppilegur stuðningur við framleiðendur í þróunarríkjum sem vilja koma afurðum sínum á alþjóðlegan markað.

Þetta er meðal niðurstaðna í könnun sem Capacent hefur unnið fyrir International Finance Corporation (IFC), sem er sú eining Alþjóðabankans, eða World Bank Group í Washington, er sinnir stuðningi við einkafyrirtæki í þróunarríkjum.

Capacent vann í kjölfarið alþjóðlega könnun á markaðsþróun og bestu starfsháttum á sviði SCF. Könnunin ber heitið Global Supply Chain Financing Market Study og eru aðstæður í Bangladesh, Brasilíu, Gvatemala, Indónesíu, Rúmeníu, Tyrklandi og Víetnam þar skoðaðar sérstaklega og lagt mat á jafnt þörfina fyrir sem áhugann á vörudreifingarfjármögnun.

Markmið könnunarinnar var að geta í framhaldinu lagt mat á hversu vel SCF hentar sem tæki fyrir Alþjóðabankann til að efla útflutning þróunarríkja.

Vinnu við könnunina lauk í nóvember á síðasta ári og í ljósi niðurstaðna hennar ákvað IFC að gera áframhaldandi samning við Capacent um frekari úrvinnslu á niðurstöðunum og eftirfylgni þeirra.

Hefur Capacent verið falið að þróa tillögur um hvernig IFC geti beitt vörudreifingarfjármögnun í auknum mæli til að styðja við fyrirtæki í þróunarríkjum, sem selja framleiðslu sína til stórfyrirtækja í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan.

„Það er mikil viðurkenning fyrir Capacent að Alþjóðabankinn skuli hafa valið okkur sem samstarfsaðila í þessu verkefni og sýnir að Capacent hefur tryggt sér stöðu sem leiðandi fyrirtæki á sviði rannsókna og ráðgjafar á Norðurlöndunum. Þetta er mjög spennandi og heillandi verkefni og við vonum að niðurstöður þessarar vinnu muni gagnast Alþjóðabankanum vel í stuðningi við fyrirtæki í þróunarríkjunum," segir Skúli Gunnsteinsson, forstjóri Capacent International.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×