Viðskipti innlent

Facebook gæti kostað íslenskt atvinnulíf 15 milljarða á ári

Breki Logason skrifar
Facebook. Mynd/ AFP.
Facebook. Mynd/ AFP.
Facebook kostar Dani um 250 milljarða íslenskra króna á hverju ári í glötuðum vinnustundum samkvæmt nýjum rannsóknum þar í landi. Ef könnunin er heimfærð yfir á Ísland kostar Facebooknotkun okkur um 15 milljarða króna.

Fjallað er um málið í viðskiptablaðinu Börsen í dag en það var danska viðskiptaráðið sem stóð að rannsóknunum. Danir eru í hópi þriggja landa í heiminum þar sem meirihluti þjóðarinnar notar Facebook en Ísland er einnig í þeim hópi.

Magnús Árni Magnússon, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, segist ekki vita til þess að mælingar af þessu tagi hafi verið gerðar hér á landi. Í sama streng tekur Hörður Vilberg hjá Samtökum atvinnulífsins.

Ef tölurnar eru hinsvegar heimfærðar yfir á Ísland, þá kostar Facebook þjóðarbúið um 15 milljarða króna í glötuðum vinnustundum.

Meðal þess sem fram kom í rannsókninni í Danmörku var að aðeins 7,8% af dönskum Facebooknotendum hafa gagn af vefsíðunni í starfi sínu í formi viðskiptavina og viðskiptasambanda.

Anders Colding-Jörgensen sálfræðingur segir í frétt Börsen að það geti verið starfsmönnum til góða ef vinnuveitendur takmarki notkun Facebook meðal starfsmanna sinna. Facebook skapi fíkn hjá sumum og sé mikill tímaþjófur.

Peter Grönne hjá veffyrirtækinu Dwarf, sem vann að rannsókninni, segir að bann við notkun Facebook sé kannski ekki rétta svarið við vandamálinu. Hinsvegar megi takmarka notkunina til dæmis með því að tölvupóstur tengdur vinnu viðkomandi sé ekki notaður á Facebook.




Tengdar fréttir

Facebook kostar danska vinnuveitendur 250 milljarða

Danir nota hina vinsælu vefsíðu Facebook það mikið í vinnu sinni að það kostar danska vinnuveitendur 11 milljarða danskra kr. eða um 250 milljarða kr. á hverju ári í glötuðum vinnustundum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×