Viðskipti innlent

Gríðarlegur samdráttur í fjárfestingu atvinnuveganna

Gríðarlegur samdráttur varð í fjárfestingu atvinnuveganna á síðasta ári. Nam samdrátturinn frá fyrra ári 54% og kemur sá samdráttur í kjölfar tæplega 30% samdráttar árið 2008 og 22% samdráttar árið 2007.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að hér muni mestu um minni stóriðjufjárfestingu en einnig hefur áhrif að minna er nú fjárfest í byggingum og öðrum mannvirkjum en þessar tölur koma varla neinum á óvart sem þreytt hefur þorrann hér á landi undanfarin misseri.

Atvinnulífið hefur lægt seglin samhliða því sem allar ytri aðstæður í hagkerfinu hafa verið með erfiðasta móti. Ennþá meiri varð samdrátturinn í fjárfestingu í íbúðarhúsnæði á síðasta ári en hann nam tæpum 58% frá fyrra ári. Samdrátturinn nú kemur í kjölfar 22% samdráttar árið 2008.

Þetta er mikill viðsnúningur frá þróun fyrri ára, en árlegur meðalvöxtur íbúðafjárfestingar var í kringum 20% árin 2004 - 2007. Í nýjustu spá Seðlabankans er enn gert ráð fyrir samdrætti á þessu ári sem nemur tæpum 19%. Bati næst svo árið 2011 samkvæmt spá Seðlabankans þegar fjárfesting í íbúðarhúsnæði eykst um 9,5% frá fyrra ári.

Þetta er mikill viðsnúningur frá því sem áður var en hátt fjárfestingastig hefur, ásamt einkaneyslu, verið ein helsta undirstaða hagvaxtar hér á landi undanfarin ár. Núna er fjárfesting í hagkerfinu hinsvegar í sögulegu lágmarki og var á síðasta ári aðeins 14,1% af landsframleiðslunni.

Þessi mikli viðsnúningur í fjárfestingu er sérstaklega harður í ljósi þess hversu hátt fjárfestingastigið hefur verið í hagkerfinu á undanförnum árum en hápunktur þeirra þróunar varð árið 2006 þegar fjárfesting í stóriðju náði hámarki. Það ár nam fjárfesting tæplega 35% af landsframleiðslu sem var bæði langt yfir sögulegu meðaltali og því sem sést í öðrum iðnvæddum ríkjum.

Að meðaltali hefur hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu verið 25% óslitið frá árinu 2000 og allt fram til ársins 2008. Á síðasta ári dróst fjárfesting saman um 50% en frá því fjárfesting í hagkerfinu náði hámarki árið 2006 hefur hún dregist saman ár frá ári. Í fyrstu var samdrátturinn að mestu leyti tilkominn vegna endaloka stóriðjuframkvæmda en svo bættust við áhrif fjármálakreppunnar. Niðurstaðan er gríðarlegur samdráttur með tilheyrandi áhrifum á atvinnustig og hagvöxt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×