Viðskipti innlent

Íslenskt tölvukerfi notað í kauphöllinni í London

Hugbúnaðarfyrirtækið TM Software ehf. hefur á skömmum tíma selt eigið tímaskráningar- og verkbókhaldskerfi til 38 landa með aðstoð netsins, þar á meðal til fjölmargra stórfyrirtækja og stofnana, svo sem til kauphallarinnar í Lundúnum og Deutsche bank. Einnig hefur kauphöllin í New York og örgjörvaframleiðandinn Intel hlaðið kerfinu niður til reynslu.

Í tilkynningu segir að tímaskráningarkerfið, sem nefnist Tempo, er viðbót við verkbeiðna- og þjónustukerfið JIRA frá ástralska hugbúnaðarfyrirtækinu Atlassian og gerir notendum kleift að tengja við tímaskráningar og koma í veg fyrir tvískráningar beiðna og reikninga.

Kerfið var upphaflega þróað til nota innanhúss en ákveðið var að prófa sölu í gegnum netið til reynslu á síðasta ári þegar verkefnum fækkaði á heimamarkaði. „Árangurinn lét ekki á sér standa. Lausnin hefur fengið afar góða dóma hjá notendum og á fyrstu mánuðum prófuðu fyrirtæki á borð við Apple, Sony í Evrópu og bandaríski netrisinn America Online lausnina auk fyrirtækja hér á landi. Viðskiptavinir nú eru tæplega 200 talsins í 38 löndum," segir Ágúst Einarsson framkvæmdastjóri TM Software.

Ágúst segir að mestur áhugi sé frá fyrirtækjum í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu. „Við höfum einungis kynnt lausnina í gegnum netið og jákvæð viðbrögð hafa skilað sér í því að sala á Tempo hefur tvöfaldast á síðustu 2 mánuðum."

Ágúst segir að árangur í sölu á Tempo sé í takt við afkomu félagsins, sem sé jákvæð og umfram áætlanir það sem af er þessu ári. „Tekjur fyrirtækisins hafa vaxið um 13% miðað við síðasta ár og má auknar tekjur fyrirtækisins reka til betri verkefnastöðu og aukinnar eftirspurnar eftir vörum þess."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×