Viðskipti innlent

SI óskar þess að frumvarp Ögmundar dagi uppi

Ögmundur Jónasson leggur í fimmta sinn fram tillögu um að skerða samkeppnisstöðu innlendra bjórframleiðenda gagnvart erlendum. "Vonandi fer fyrir frumvarpi Ögmundar á sama veg og í hin skiptin fjögur, segir Jón Steindór Valdimarsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI) í tilkynningu frá samtökunum.

"Það er skýlaus krafa að innlendir framleiðendur sitji við sama borð og erlendir keppinautar þegar kemur að áfengisauglýsingum sem ber fyrir augu og eyru íslenskra neytenda. Samtök iðnaðarins hafa talað fyrir því í fjölda ára. Þau hafa einnig lagt til að settar verði skýrar reglur sem byggi á evrópskum reglum um auglýsingar á áfengi, segir Jón Steindór Valdimarsson.

Nú ber svo vel í veiði að skýrsla starfshóps á vegum fjármálaráðherra kom út í liðnum janúar. Starfshópurinn hafði það verkefni að gera tillögur um heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar, þar á meðal reglur um áfengisauglýsingar.

Samtök iðnaðarins hvetja Alþingi til þess að leggja frumvarp Ögmundar til hliðar en fara þess í stað að tillögum nefndar fjármálaráðherra sem skipuð var fagfólki.

Í skýrslunni segir m.a. um áfengisauglýsingar:

"Lagaákvæði um auglýsingar kveða á um bann við auglýsingum á áfengi með nokkrum undantekningum. Lagaákvæðið er nokkuð skýrt en vegna undanþáguákvæða er hægt að sniðganga bannið með auðveldum hætti s.s. með auglýsingu firmamerkis.

Starfshópurinn leggur til að heimila skuli auglýsingar áfengi með miklum takmörkunum þó. Slíkt er í samræmi við reglur flestra Norðurlandaþjóðanna og gerir að mati starfshópsins eftirlit skilvirkara og eyðir réttaróvissu sem nú ríkir."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×