Viðskipti innlent

Bílaleigan Alp sett í opið söluferli

Bevís ehf. hefur falið Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. að annast formlegt ferli sem lýtur að mögulegri sölu á 100% hlut í Alp ehf., sem rekur eina af stærstu bílaleigum Íslands undir vörumerkjum Avis og Budget.

Í tilkynningu segir að Bílaleigan Alp var stofnuð árið 1980 og rekur í dag eina af stærstu bílaleigum Íslands undir alþjóðlegum vörumerkjum Avis og Budget. Markaðshlutdeild félagsins var áætluð um 25% á árinu 2009.

Félagið hefur aðsetur í Reykjavík og Keflavík, ásamt því að reka leigustöðvar víðsvegar um landið. Bílafloti félagsins í dag stendur í um 800 bílum, en áætlanir gera ráð fyrir að bílaflotinn verði yfir 1.150 bílar á háannatíma í sumar. Félagið er í dag að fullu í eigu Bevís ehf..

Söluferlið verður opið öllum áhugasömum fjárfestum sem uppfylla skilyrði til þess að geta talist fagfjárfestar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, einstaklingum sem hafa verulegan fjárhagslegan styrk og viðeigandi þekkingu, auk fyrirtækja sem höfðu eiginfjárstöðu sem var hærri en sem nemur 300 milljónum kr. í árslok 2009.

Seljandi áskilur sér þó rétt til þess að takmarka aðgang að söluferlinu í þeim tilvikum þegar fyrir hendi eru lagalegar eða annarskonar takmarkanir á því að fjárfestir eignist ráðandi hlut í félaginu, svo sem vegna samkeppnisreglna.

Áhugasamir fjárfestar þurfa að fylla út trúnaðaryfirlýsingu ásamt því að leggja fram nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem staðfesta að ofangreind skilyrði séu uppfyllt. Framangreindu skal skilað til Fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka.

Sölugögn verða afhent á tímabilinu frá 29. mars til og með 12. apríl með rafrænum hætti á netfang sem fjárfestar tilgreina í trúnaðaryfirlýsingu. Gert er ráð fyrir að tilboðum með sérstaklega tilgreindum fyrirvörum sé skilað til Íslandsbanka, fimmtudaginn 15. apríl 2010. Skuldbindandi tilboð verða opnuð í viðurvist óháðs aðila.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×