Viðskipti innlent

Breytingin á Bakkavör til skoðunar hjá FME

Þórður Friðjónsson
Þórður Friðjónsson

Fjármálaeftirlitið hefur gert athugasemdir við fyrirhugaða breytingu á eignarhaldi Bakkavarar og afskráningu félagsins úr Kauphöll, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Stjórn Bakkavarar hefur boðað til hluthafafundar á morgun að frumkvæði kröfuhafa. Fundurinn er liður í nauðasamningum, sem meirihluti kröfuhafa samþykkti í byrjun mánaðar.

Gangi allt eftir á fundinum munu kröfuhafar eignast 27 prósenta hlut í Bakkavör og hlutur Bakkavararbræðra, þeirra Ágústs og Lýðs Guðmundssona, þurrkast út. Þeir eru nú skráðir fyrir 30,8 prósenta hlut í Bakkavör í gegnum félagið B Food Invest.

Í kjölfarið verður Bakkavör breytt úr almenningshlutafélagi í einkahlutafélag og hlutabréf þess síðan tekin úr viðskiptum í Kauphöllinni. Bakkavör er eitt þeirra sex fyrirtækja sem mynda Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar. Stjórn félagsins óskaði eftir afskráningu í ágúst í fyrra.

Kauphallarreglur heimila ekki einkahlutafélögum að vera með skráð hlutabréf á markaði. Því verði fyrst að afskrá Bakkavör áður en hægt verði að breyta félaginu í einkahlutafélag. Lög um skráð hlutafélög á markað eru sérlög sem ganga framar almennum reglum laga um hlutafélög.

Kauphöllin gagnrýndi breytinguna á mánudag. Gangi hún eftir bryti það í bága við lög og málið sent Fjármálaeftirlitinu.

Þórður Friðjónsson sagði í samtali við Fréttablaðið á dögunum nokkur vafaatriði í fyrirhugaðri afskráningu Bakkavarar. Auk gagnrýni á eignarhaldsbreytingu félagsins virðist sem ekki sé gætt að hag minni hluthafa félagsins þar sem útlit sé fyrir að þeim bjóðist engar útgönguleiðir fyrir afskráningu, svo sem með beinni sölu á eignarhlutum sínum eða greiðslu í öðru formi.

„Þetta finnst okkur ekki hafa á sér góðan blæ né til þess fallið að efla trúverðugleika á markaði," sagði hann.

jonab@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×