Viðskipti innlent

FA stendur við sitt þrátt fyrir breytingar á stjórn fiskveiða

Félag atvinnurekenda (FA) stendur við sína kjarasamninga en krefst aðgerða af hálfu stjórnvalda. Félag atvinnurekenda stendur við gerða kjarasamninga þrátt fyrir breytingar á stjórn fiskveiða.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá FA. Þar segir að ríkisvaldið þurfi hins vegar að vinna hraðar í opinberum framkvæmdum. Aðalframkvæmdatími ársins er að renna upp og of fá verkefni hafa verið undirbúin.

Skapa þarf litlum og meðalstórum fyrirtækjum umhverfi til þess að vaxa og laða til sín fólk, það gerist ekki við núverandi vaxtastig.

Skattheimta á verslunar og þjónustufyrirtæki er komin út fyrir þolmörk og takmarkar verulega getu fyrirtækja til að bæta við sig fólki. Auka þarf hagkvæmni og ráðdeild í ríkisrekstri.

Í ljósi umræðna um stöðugleikasáttmála milli ríkisvaldsins og ýmissa aðila á vinnumarkaði, telur FA rétt að afstaða félagsins komi fram með skýrum hætti. Félagið telur mikilvægt að stöðugleiki ríki á vinnumarkaði og stendur því við sína kjarasamninga. Það er hins vegar mikilvægt að fjárfestingarverkefni, stór og smá, verði að veruleika. Til þess þarf ríkisstjórnin að skapa hvetjandi umgjörð.

„Félag atvinnurekenda telur að stöðugleiki á vinnumarkaði sé grundvallarforsenda nú um stundir. Það þarf að fækka óvissuþáttum í efnahagslífinu ekki fjölga þeim. Stjórnvöld þurfa að hvetja þjóðina til góðra verka með markvissum aðgerðum í stað þess að skattleggja fyrirtæki og einstaklinga í kyrrstöðu," segir Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri FA.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×