Viðskipti innlent

Meniga í samvinnu við Applicon á Norðurlöndum

Hugbúnaðarfyrirtækið Meniga, sem rekur samnefndan fjármálavef fyrir heimili, hefur valið Applicon í Svíþjóð, dótturfélag Nýherja hf, til þess að annast endursölu á lausnum félagsins til banka á Norðurlöndunum.

Í tilkynningu segir að Meniga.is er heimilisfjármálavefur sem gerir fólki mögulegt að öðlast heildaryfirsýn yfir fjármál heimilisins, halda bókhald og bendir á leiðir til sparnaðar sem eru sérsniðnar að neyslumynstri hvers og eins.

Meniga sækir og flokkar sjálfvirkt allar færslur af bankareikningum og greiðslukortum notenda og setur sjálfkrafa upp fjárhagsáætlun sem byggir á raunútgjöldum síðustu mánaða. Þúsundir hafa tekið lausnina í notkun á Íslandi og er markmiðið með samstarfi Meniga við Applicon í Svíþjóð að bjóða samskonar lausn þar í landi og víðar á Norðurlöndunum.

„Meniga er næsta kynslóð af netbankaþjónustu sem tryggir notendum fjármálaráðgjöf í rauntíma. Lausnin mun gjörbreyta samskiptum viðskiptavina og banka á sama hátt og netbankar gerðu fyrir 15 árum. Með virðisaukandi lausn eins og Meniga geta bankar boðið einstaklingum einkar skilvirka og hagkvæma leið til þess að fá heildarsýn yfir fjármál heimilisins. Um leið geta bankar eflt langtímasamband sitt við viðskiptavini. Við höfum miklar væntingar til samstarfsins og hlökkum til að bjóða lausnina til viðskiptavina," segir Arne Nabset framkvæmdastjóri Applicon í Svíþjóð.

„Heimilisfjármálavefir á borð við Meniga hafa slegið í gegn hjá viðskiptavinum banka á Íslandi, Spáni, í Bandaríkjunum og víðar en engin slík þjónusta hefur verið í boði í Skandinavíu fram að þessu. Samstarfið við Applicon fellur mjög vel að áformum Meniga um að selja lausnir sínar á Norðurlöndum enda hefur Applicon náð frábærum árangri í sölu lausna og þjónustu til banka og fjármálafyrirtækja þar," segir Georg Lúðvíksson framkvæmdastjóri Meniga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×