Viðskipti innlent

Óvenjumikill samdráttur í verslun í apríl, sala áfengis 31% minni

Dagvöruverslun dróst saman um 11,7% á föstu verðlagi í apríl miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 9,3% á síðastliðnum 12 mánuðum.
Dagvöruverslun dróst saman um 11,7% á föstu verðlagi í apríl miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 9,3% á síðastliðnum 12 mánuðum.
Óvenjumikill samdráttur varð í veltu dagvöruverslunar og áfengisverslunar í apríl síðastliðnum miðað við sama mánuði í fyrra. Ástæðuna má að hluta til rekja til þess að páskaverslun fór fram í mars á þessu ári en í apríl í fyrra. Páskarnir skýra samt ekki alfarið þennan mikla mun. Þegar horft er til samanburðar á fyrri árum þegar páskar voru annað árið í mars og það næsta í apríl kom ekki fram þessi mikli munur á veltu milli ára.

Þetta kemur fram í yfirliti frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar segir að velta í dagvöruverslun dróst saman um 11,7% á föstu verðlagi í apríl miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 9,3% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Sala áfengis dróst saman um 31,0% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi. Verð á áfengi var 18,1% hærra í apríl síðastliðnum en í sama mánuð í fyrra.

Fataverslun var 13,8% minni í apríl miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og 4,3%. Verð á fötum var 11,1% hærra í apríl síðastliðnum en í sama mánuði ári fyrr.

Velta skóverslunar minnkaði um 11,0% í apríl á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hefur hækkað um 17,4% frá apríl í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 12,1% minni í apríl en í sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm minnkaði um 52,6% frá því í fyrra á föstu verðlagi. Verð á húsgögnum var 9,3% hærra í apríl síðastliðnum miðaða við sama mánuð í fyrra.

Sala á raftækjum í apríl minnkaði um 13,3% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra. Verð á raftækjum hækkaði um 8,6% frá apríl 2009.

Enn meiri samdráttur var í sölu áfengis en í dagvöru í apríl. Þannig var velta áfengisverslunar 31,0% minni á föstu verðlagi í apríl síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra og hefur ekki verið minni í neinum aprílmánuði síðan árið 2002. Sala í áfengislítrum var 28,7% minni í nýliðnum aprílmánuði en í apríl í fyrra. Dregið hefur umtalsvert úr sölu áfengis það sem af er þessu ári frá síðasta ári hvort sem viðmiðið er velta eða áfengislítrar. Ástæðan er vafalaust hækkanir á verði áfengis.

Velta sérvöruverslana í apríl dróst einnig saman miðað við apríl í fyrra - fataverslun um 13,8% og skóverslun um 11,0% á föstu verðlagi. Skýringar geta bæði verið að neytendur bíði lengur fram á vor með að kaupa föt og skó fyrir sumarið eða að beðið sé eftir lækkuðu verði í hefðbundnum útsölumánuðum.

Sömu sögu er að segja um húsgagnaverslun og raftækjaverslun, þar sem velta var mun minni í nýliðnum apríl en í apríl í fyrra. Húsgagnaverslun hefur minnkað um 61,4% að raunvirði á síðustu tveimur árum og raftækjaverslun um 48,6% á sama tíma.

Sá samdráttur sem kemur fram í veltu versluna í apríl er nokkuð óvæntur ef miðað er við þróunina fyrstu þrjá mánuði ársins. Á tímabilinu janúar til mars síðastliðnum virtist sem nokkurt jafnvægi væri komið á einkaneyslu. Þetta kom fram í veltu verslana, minni samdrætti í greiðslukortanotkun, minnkandi kaupmáttatrýrnun og væntingavísitölu Capacent Gallup sem birt var í apríl og fór upp fyrir 50 sitg í fyrsta skipti síðan október 2008. Allt eins má því ætla að samdráttur í verslun í apríl verði ekki varanlegur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×