Viðskipti innlent

Eimskip skilar hagnaði

Afkoma Eimskipafélags Íslands hf. eftir skatta er jákvæð um 2,3 milljónir evra eða 423 milljónir kr. fyrir tímabilið frá 1 október - 31. desember 2009.

Í tilkynningu segir að rekstrarafkoma var jákvæð um 8,5 milljónir evra eða 1.561 milljónir kr. Heildareignir félagsins eru 279 milljónir evra eða 50 milljarðar kr. og var eiginfjárhlutfall félagsins 53,7% í lok árs 2009. Vaxtaberandi skuldir félagsins eru 81 milljónir evra eða 14,6 milljarðar kr.

Eimskip fór í gegnum heildar endurskipulagningu á árinu 2009. Í tengslum við endurskipulagninguna tóku kröfuhafar og nýr fjárfestir yfir flutningastarfsemi félagsins þann 1.október 2009 og skipuðu nýja stjórn. Hluthafar félagsins eru nú 74 talsins, gamli Landsbankinn fer með 37% hlut og bandaríski fjárfestingasjóðurinn Yucaipa fer með 32% hlut en sjóðurinn kom að endurskipulagningu félagsins með því að fjárfesta í frystigeymslustarfseminni í Norður Ameríku og leggja inn nýtt hlutafé í endurskipulagt félag.

Í dag er Eimskip með starfsemi í 16 löndum og hefur á að skipa 1.250 starfsmönnum, þar af vinna um 730 starfsmenn á Íslandi. Stefna félagsins er að veita öfluga flutningaþjónustu á Norður Atlantshafi ásamt því að bjóða víðtæka frystiflutningsmiðlun. Um helmingur af tekjum félagsins koma frá starfsemi utan Íslands.

Fyrsti ársfjórðungur ársins 2010 er í takt við áætlanir og er að skila jákvæðri afkomu fyrir skatta að fjárhæð EUR 1,9 milljónir evra 329 milljónir kr. og rekstrarafkoma (EBITDA) er jákvæð um 7,7 milljónir evra eða 1,4 milljarðarkr.

Á árinu 2009 fór Eimskip í gegnum miklar skipulags og hagræðingaraðgerðir sem eru að skila sér í jákvæðri rekstrarafkomu. Ytra umhverfi fyrirtækisins er hinsvegar erfitt og töluverður samdráttur hefur verið í flutningamagni á markaðssvæði félagsins á Norður Atlantshafi. Eimskip hefur unnið markvisst að því að móta stefnu félagsins á sviði flutningastarfsemi og er árangur þeirrar vinnu nú að líta dagsins ljós.

„Það er brýnt fyrir íslenskt atvinnulíf að hjólin fari að snúast í rétta átt og að við lítum fram á veginn, því er það mjög mikilvægt að fyrirtæki eins og Eimskip leiði uppbygginguna með jákvæðri afkomu. Þau fyrirtæki sem byggja á gömlum og traustum grunni þurfa að leita aftur í uppruna sinn og að byggja upp að nýju á réttum forsendum," segir í tilkynningunni.

„Eimskip er eitt þeirra fyrirtækja sem fór mjög illa í offjárfestingu, skuldsetningu, ómarkvissri stefnu og aðhaldsleysi. Flutningastarfsemi Eimskip byggir á gömlum og traustum stoðum og félagið hefur á að skipa góðu starfsfólki með áralanga reynslu sem auðveldar alla uppbyggingu til framtíðar, nú þegar félagið nálgast 100 ára afmæli sitt."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×