Ein ástsælasta smurbrauðsjómfrú landsins, Oddrún Sverrisdóttir, hefur gengið til liðs við veitingahúsið Nauthól í Nauthólsvík. Oddrún mun leiða smurbrauðsgerð Nauthóls, en hún hefur starfað í faginu í hartnær fjóra áratugi, þar af síðustu tvo áratugina hjá smurbrauðsgerðinni Brauðbæ.
Í tilkynningu segir að hægt verður að panta smurbrauð fyrir veislur og fundi hjá Oddrúnu auk þess sem valdar smurbrauðsuppskriftir úr þykkri matreiðslubók Oddrúnar munu rata inn á matseðilinn hjá Nauthól.
Smurbrauð hefur notið vaxandi vinsælda á Íslandi undanfarin ár. Þau njóta mikillar hylli sem hádegisverður og einnig er vinsælt að borða þau til hátíðarbrigða svo sem á aðventunni.
Oddrún er kunnáttusöm í smurbrauðsgerð enda lærði hún til fagsins hjá erkijómfrúnni sjálfri Idu Davidsen í Kaupmannahöfn á árunum 1969 til 1972. Oddrún starfaði einnig sem yfirjómfrú hjá Idu í nokkur ár eftir námið en Ida er án vafa frægasta smurbrauðsdama heims.
Saga smurbrauðsgerðar Davidsen fjölskyldunnar nær aftur til ársins 1888, þegar vínkaupmaðurinn Oskar Davidsen opnaði vínbar í Kaupmannahöfn. Kona hans byrjaði að smyrja brauð ofan í soltna gestina og orðrómurinn um gómsætar brauðsneiðarnar barst sem eldur í sinu um borgina og þar með var grunnurinn að smurbrauðshefðinni lagður.