Viðskipti innlent

Sala Sjóvar frestast líklega

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Tryggingafélagið verður í eigu skilanefndar Glitnis og Íslandsbanka enn um sinn þar sem verðhugmyndir fjárfesta ríma ekki við væntingar ríkissjóðs og skilanefndar Glitnis. Fjármálaráðherra segir að fyrirtækið verði ekki selt á undirverði.

Sjóvá er í dag í eigu SAT eignarhaldsfélags, sem er í eigu skilanefndar Glitnis sem á 90 prósenta hlut og Íslandsbanka sem á tæplega tíu prósent.

Af þeim tólf sem skiluðu óskuldbindandi tilboðum í Sjóvá fengu sex að halda áfram og þeim gafst kostur að skila inn bindandi tilboðum. Þessir aðilar sameinuðust síðan um að skila inn tveimur tilboðum, en samkvæmt heimildum fréttastofu var himinn og haf milli verða á tilboðunum tveimur. Fyrirvarar voru á báðum en miklir fyrirvarar á hærra tilboðinu voru þess eðlis að ekki var augljóst að það yrði á endanum hagstæðara en lægra tilboðið. Viðræður stóðu síðan yfir alla síðustu viku við báða tilboðsgjafa til að fara betur yfir ákveðin atriði tengd tilboðunum.

Aðkoma ríkissjóðs að söluferlinu er óbein, en ríkissjóður setti ásamt Íslandsbanka rúmlega 11 milljarða af þeim sextán milljörðum króna sem settir voru inn í rekstur Sjóvár til að tryggja áframhaldandi starfsgrundvöll fyrirtækisins, en félagið uppfyllti ekki lengur skilyrði um gjaldþol tryggingafélaga og gat ekki mætt vátryggingarskuld áður en ríkissjóður, skilanefnd Glitnis og Íslandsbanki hlupu undir bagga.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum fréttastofu innan úr skilanefnd Glitnis og fjármálaráðuneytinu eru allar líkur á því að Sjóvá verði ekki selt í opnu söluferli að svo stöddu. Ástæðan er sú að þau tilboð sem bárust ríma illa við hugmyndir eigandanna um verðmæti félagsins.

Eigendurnir eru samstíga í málinu en ekki verður tekin endanleg ákvörðun fyrr en viðræður við tilboðsgjafa hafa verið endanlega leiddar til lykta. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, vildi ekki tjá sig efnislega um afstöðu ríkisins í málinu í samtali við fréttastofu, en sagði alveg klárt að það væru hagsmunir ríkissjóðs að fyrirtækið yrði ekki selt á undirverði.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×