Viðskipti innlent

Hagnaður Hampiðjunnar hálfur milljarður í fyrra

Hagnaður Hampiðjunnar eftir skatta á síðasta ári nam 520 milljónum kr. Til samanburðar nam hagnaðurinn 120 milljónum kr. árið 2008.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að rekstrartekjur Hampiðju samstæðunnar voru kr. 6,6 milljarðar kr. og jukust í krónum talið um 27% á milli ára. Rekstrartekjur drógust saman í evrum um 5% frá fyrra ári sem skýrist af innlendri sölu móðurfélagsins, sem mælist í færri evrum vegna gengisfalls krónunnar.

Heildareignir voru um 13,5 milljarðar kr. í árslok. Skuldir námu um 7 milljörðum kr. og lækkuðu um 172 milljónir kr. frá fyrra ári. Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin með eigin fé, var í árslok 48% af heildareignum samstæðunnar.

„Reksturinn gekk ágætlega á síðasta ári. Rekstrarhagræðingin, sem unnið hefur verið að á síðustu árum í framleiðslu á garni, netum og köðlum, m.a. með kaupum á fyrirtækinu Utzon í Litháen og flutningi á starfsemi frá Íslandi og Portúgal til þess félags, hefur bætt samkeppnisstöðu samstæðunnar verulega eins og ársreikningurinn ber með sér," segir Jón Guðmann Pétursson, forstjóri Hampiðjunnar í tilkynningunni.

„Þá var á árinu unnið mikið starf í vöruþróun, bæði í köðlum í veiðarfæri, köðlum úr ofurefnum til ýmissa nota og á toghlerum. Í samræmi við stefnu Hampiðjunnar, hefur verið sótt um einkaleyfi á áhugaverðum vörunýjungum Hampiðjunnar. Hampiðjan mun halda áfram að verja þróunarstarf sitt með umsóknum um einkaleyfi og er einbeitt í því að verja útgefin einkaleyfi fyrir brotum samkeppnisaðila."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×