Viðskipti innlent

SA telur kröfur um hækkun lágmarkslauna óraunhæfar

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir kröfur Starfsgreinasambandsins (SGS) um að lágmarkstekjur fyrir fulla dagvinnu verði kr. 200.000 frá 1. desember 2010 óraunhæfar við núverandi aðstæður en krafan felur í sér 21% hækkun.

SGS krefjast einnig almennra launahækkana frá 1. desember 2010 auk atriða vegna einstakra sviða kjarasamningsins sem ekki hafa verið metin.

Fjallað er um málið á vefsíðu SA þar sem vitnað er í samtal við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, í morgunfréttum RÚV. Vilhjálmur segir að í síðustu kjarasamningum hafi lægstu kauptaxtar og lágmarkslaun og verið hækkuð umfram annað.

Kjarasamningarnir í febrúar 2008 hafi verið mestu láglaunasamningar sem gerðir hafi verið. Þannig hafi kaupmáttur lægstu launa verið varinn í kreppunni á meðan kaupmáttur hærri launa hafi lækkað.

Viljálmur segir að Samtök atvinnulífsins hafi þá sýn í komandi kjarasamningum að öll laun hækki svipað. Ólíklegt sé að það náist samstaða milli launþegahópa um að lægstu laun hækki umfram önnur laun eins og í síðustu samningum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×