Viðskipti innlent

Ríkið vill kaupa skuldabréf í evrum fyrir 47 milljarða

Birt hefur verið tilkynning þess efnis að Ríkissjóður Íslands bjóðist til þess að leysa til sín skuldabréf sem gefin voru út í evrum og eru með gjalddaga árin 2011 og 2012.

Í tilkynningunni kemur fram að ríkissjóður sé tilbúinn til að kaupa skuldabréf ríkisins í evrum fyrir allt að 300 milljónir evra eða um 47 milljarða kr. að nafnverði. Fram kemur að um svæðisbundnar takmarkanir er að ræða hvað þátttöku varðar.

Þetta segir á vefsíðu Seðlabankans en kaupin fara fram í gegnum útboð og nánari upplýsingar verða veittar að útboði loknu.

Um er að ræða tvo skuldabréfaflokka, annan upp á milljarð evra með gjalddaga 2011 og hinn upp á 259 milljónir evra með gjalddaga 2012.

Áður hefur komið fram í fréttum að Seðlabankinn hefur þegar keypt úr þessum flokkum fyrir 177 milljónir evra að nafnvirði. Fékk bankinn drjúgan afslátt af nafnverðinu í þeim kaupum.

Í tilkynningunni kemur fram að City Bank og Citigroup Global Markets munu annast útboðið.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×